Körfubolti

NBA dagsins: Sítrónupiparinn fékk að vita rétt fyrir leik að komið væri að frumraun og fagnaði sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Lou Williams með boltann gegn Milwaukee Bucks í gærkvöld.
Lou Williams með boltann gegn Milwaukee Bucks í gærkvöld. AP/Brynn Anderson

Lou Williams fékk að vita það klukkutíma fyrir leik með Atlanta Hawks í gærkvöld að hann ætti að byrja leik í úrslitakeppni í fyrsta sinn á ferlinum. Frumraunin fór vel eins og sjá má í NBA dagsins hér á Vísi.

Williams var stigahæstur Atlanta Hawks í 110-88 sigri gegn Milwaukee Bucks. Með sigrinum jafnaði Atlanta úrslitaeinvígi austurdeildarinnar í 2-2.

Williams skoraði 21 stig, átti átta stoðsendingar og tók fimm fráköst. Þannig sá hann til þess að Atlanta saknaði Trae Young minna en ella. Young meiddist í þriðja leik einvígisins eftir að hafa stigið aftur fyrir sig á dómara.

„Ég vissi það klukkutíma fyrir leik að ég myndi byrja þegar þeir sögðu að Trae væri úr leik. Ég varð bara að einbeita mér upp á nýtt, fyrir annað hlutverk, og gera mig kláran í leikinn,“ sagði hinn 34 ára gamli Williams, eða Sítrónupiparinn (e. Lemon Pepper Lou) eins og hann er kallaður. Viðurnefnið fékk hann eftir að hafa stolist út úr NBA-búbblunni síðasta sumar, þá sem leikmaður LA Clippers, að sögn til að gæða sér á kjúklingavængjum á strippstað.

Óvissa ríkir um framhaldið hjá Young, rétt eins og hjá Giannis Antetokounmpo sem meiddist í leiknum í nótt. Svipmyndir úr leiknum og frá því þegar Antetokounmpo meiddist í þriðja leikhluta má sjá í NBA dagsins hér að neðan:

Klippa: NBA dagsins 30. júní

Williams sagði Young hafa haft áhrif þó að hann hafi verið utan vallar:

„Hann tók þátt. Auðvitað vildi hann vera inni á vellinum. Hann er ungur en á eftir að vera leiðtogi þessa liðs. Hann er alltaf að vaxa og sýndi mikinn þroska í kvöld með því að vera til staðar og reyna að gera sitt til að við myndum vinna,“ sagði Williams.

Án Youngs lögðu margir sitt að mörkum fyrir Atlanta og sex leikmenn liðsins skoruðu 10 stig eða meira: „Þetta var eitt af þessum kvöldum. Það léku allir fullir sjálfstrausts, og vel,“ sagði Williams.

NBA

Tengdar fréttir

Öskur Grikkjans í nóttinni og einvígið jafnt

Giannis Antetokounmpo veinaði af sársauka áður en hann var studdur af velli í tapi Milwaukee Bucks gegn Atlanta Hawks, 110-88, í úrslitum austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×