Niccolo Barella gerði vel og lék á flata varnarmenn Belga þegar hann kom þeim ítölsku yfir eftir rúmlega hálftíma leik. Félagi hans Lorenzo Insigne tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé og útlit fyrir að Ítalía færi með 2-0 forskot í hléið.
Það varð hins vegar ekki þar sem Romelu Lukaku minnkaði muninn fyrir þá belgísku með marki úr vítaspyrnu sem Jeremy Doku fiskaði í næstu sókn eftir mark Insigne. Vítaspyrnan var umdeild en dómurinn stóð.
Fátt var um færi í síðari hálfleik þar sem Ítalir gerðu vel að loka leiknum. Romelu Lukaku fékk hins vegar eitt slíkt eftir góðan undirbúning Kevins De Bruyne. Lukaku var þar fyrir gott sem opnu marki en bakvörðurinn Leonardo Spinazzola gerði frábærlega að komast fyrir og bjarga Ítölum.
Spinazzola meiddist síðar í leiknum og ljóst að hann myndi ekki taka frekari þátt á mótinu. Hann var borinn grátandi af velli og hafa fjölmiðlar greint frá því að líkast til verði bakvörðurinn frá í fleiri mánuði.
Liðsfélagar hans verða hins vegar í eldlínunni gegn Spánverjum í undanúrslitum á Wembley á þriðjudagskvöld.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.