Í júlí seldi Vínbúðin ríflega 3 milljónir lítra af áfengi, sem Kristján M. Ólafsson, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu Vínbúðarinnar, segir aldrei hafa gerst áður. Þá seldust 814 þúsund lítrar í vikunni fyrir verslunarmannahelgina, sem er 3,6 prósent aukning frá í fyrra.
„Skýring á meti júlímánaðar er að vikudagar júlí á þessu ári raðast þannig að stærstu söludagar fyrir verslunarmannahelgi og fyrstu helgi júlímánaðar eru allir í júlí,“ segir Kristján í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Afgreiðslur í verslunum Vínbúðarinnar voru 141 þúsund vikuna fyrir verslunarmannahelgi og fjölgaði lítillega frá fyrra ári en þær voru 584 þúsund talsins í júlí, sem jafngildir 1,2 prósent fækkun frá því í júlí í fyrra.