Haukur Baldvinsson og fjölskylda búa á bænum Austurási rétt fyrir utan Selfoss þar sem þau eru með myndarlegt hrossaræktarbú. Haukur sækir vinnu daglega á Toyota bílasöluna á Selfossi, sem hann rekur og þá er hann ekkert að nota Toyota bíla til að fara í og úr vinnu, nei hann notar Massey Ferguson dráttarvél enda mikill áhugamaður um þá tegund af dráttarvélum.
Haukur er snyrtimenni mikið og geymir dráttarvélina alltaf inni á nóttunni og bónar hana reglulega.
„Já, ég fer á dráttarvélinni í og úr vinnu, ekki alltaf en mjög oft, maður þarf aðeins að viðhalda sveitastemmingunni. Þetta er nú bara miðlungs vél, sem er ekkert óalgeng í sveitinni. Við erum hobbí bændur með hrossabúskap, þetta er vél sem dugar okkur í þau verk, sem þar eru,“ segir Haukur ánægður með traktorinn sinn.

„Já, já, þetta viðheldur aðeins sveitarómantíkinni í hjartanu á manni. Ég tala nú ekki um í ört stækkandi bæjarfélagi eins og Selfossi, að grípa aðeins dráttarvélina og fara á henni í vinnuna, það er bara gaman.“
Haukur segist alltaf fá þó nokkra athygli þegar hann ferðast um á dráttarvélinni.
En hvernig taka ökumenn honum?
„Bara mjög vel, þessar vélar halda upp undir 50 kílómetra hraða, þannig að maður er ekki mikið fyrir en annars taka menn manni vel og maður víkur ef maður getur vikið og annað, það er minnsta málið.“
Haukur er líka með flottan póstkassa við bæinn sinn?
„Já, tókstu eftir það, það verður einhvern veginn að halda stílnum og að hafa Massey Ferguson póstkassa líka, þetta er nú smá nostalgía í þessu. En ég á ekki Massey Ferguson húfu, ég þarf að kaupa mér eina slíka," sagði Haukur glaður í bragði.
