Innlent

Ætlaði að sækja 27 þúsund krónur en fékk 27 milljónir

Eiður Þór Árnason skrifar
Ekki liggur fyrir hvort vinningshafarnir hyggjast taka vinningsupphæðina út í reiðufé. 
Ekki liggur fyrir hvort vinningshafarnir hyggjast taka vinningsupphæðina út í reiðufé.  Getty

Báðir vinningshafarnir sem skiptu með sér 54,8 milljóna króna Lottópotti frá 7. ágúst hafa gefið sig fram. Að sögn Íslenskrar getspár komst annar þeirra í leitirnar þegar undrandi kona leit við í höfuðstöðvum fyrirtækisins í gær.

„Meðferðis hafði hún Lottómiða sem maðurinn hennar hafði beðið hana um að koma til okkar og sækja 27 þúsund króna vinninginn sem hann taldi að á honum væri. En annað kom í ljós; vinningurinn var ekki 27 þúsund heldur 27 milljónir og tæplega 400 þúsund krónum betur,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Áður hafði maðurinn látið skoða miðann á sölustað þar sem bæði hann og starfsmaðurinn lásu upphæðina vitlaust. Miðinn var síðan settur aftur í veskið og beðið eftir næstu ferð í bæinn. Að sögn Íslenskrar getspár keypti eigandinn miðann í Olís í Varmahlíð þegar hann var á ferðalagi um Norðurland.

Ætlar að fá sér annan mjólkurhristing

Eigandi hins vinningsmiðans var að kaupa sér mjólkurhristing rétt fyrir lokun á þjónustustöð N1 á Þingeyri þegar hann bætti óvænt við einum tíu raða Lottómiða með Jóker.

„Hann kom aftur í söluskálann daginn eftir – til að kaupa sér sjeik, var spurður hvort hann hefði hugsanlega keypt vinningsmiðann og mikil var gleðin þegar kom í ljós að það var akkúrat málið,“ segir í tilkynningu Íslenskrar getspár.

Vinningshafinn sagði alveg ljóst í hvað vinningurinn færi: Hann ætlar að kaupa sér íbúð og kannski einn mjólkurhristing til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×