Fótbolti

Tap hjá Jökli - Jón Daði enn frá

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jökull og félagar töpuðu í dag.
Jökull og félagar töpuðu í dag. oe Prior/Visionhaus

Jökull Andrésson og félagar hans í Morecambe þurftu að þola 2-1 tap fyrir Gillingham í ensku C-deildinni í fótbolta í dag. Í B-deildinni tapaði Millwall án Jóns Daða Böðvarssonar.

Jökull stóð milli stanganna hjá Morecambe sem sótti Gillingham heim á Priestfield. Mustapha Carayol kom heimamönnum yfir eftir fjögurra mínútna leik en Cole Stockton jafnaði fyrir Moracambe tuttugu mínútum síðar.

1-1 stóð í hléi en Vadaine Oliver skoraði það sem reyndist sigurmark Gillingham úr vítaspyrnu á 79. mínútu.

Morecambe er með fjögur stig í 16. sæti eftir fjóra leiki en Gillingham er sæti ofar með fimm stig eftir sinn fyrsta sigur á tímabilinu í dag.

Jón Daði Böðvarsson er frá vegna meiðsla og var ekki í leikmannahópi Millwall sem tapaði 3-1 fyrir Cardiff City í Wales á sama tíma. Aden Flint skoraði tvö marka Cardiff en Sean Morrison hitt. Benik Afobe skoraði mark Millwall.

Millwall leitar enn síns fyrsta sigurs en liðið er í 21. sæti, því neðsta fyrir ofan fallsætin, með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×