Vilhjálmur ætlaði sér að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu sem haldið er árlega og átti að fara fram í morgun en því var frestað vegna samkomutakmarkana. Margir hlupu sitt eigið hlaup í dag þrátt fyrir þetta og ákvað hlaupahópurinn HHHC að ganga skrefinu lengra og setja upp sömu hlaupaleið og Reykjavíkurmaraþon hefur gert, leigðu búnað til tímatöku og voru með drykkjarstöðvar á leiðinni.
Þar gekk Vilhjálmi vel; hafði einsett sér að hlaupa fyrsta maraþonið á undir þremur klukkustundum sem hafðist en hann hljóp á 2:58:38 í morgun.
„Ég ákvað að hlaupa fyrir þetta félag, Gleym mér ei, sem hafði hjálpað mér og minni kærustu eftir að við misstum fóstur í vor. Þetta er alveg ótrúlegt félag sem hefur hjálpað mörgum og mig langaði að safna pening fyrir það svo það gæti haldið starfi sínu áfram eftir erfitt síðasta ár vegna heimsfaraldursins,“ segir Vilhjálmur.

Gefa foreldrum fallega minningarkassa
„Þegar við misstum fóstur fengum við svona minningarkassa frá Gleym mér ei, sem við erum alveg ótrúlega þakklát fyrir. Þar var fótspor fóstursins, minningarbók og bangsi og alls konar sem hefur hjálpað okkur mjög í ferlinu,“ segir hann.
Slíkir minningarkassar eru ekki ókeypis, kosta reyndar 25 þúsund krónur hver fyrir styrktarfélagið en foreldrar fá þá frítt. „Mig langaði að safna fyrir þau svo þau geti haldið þessu áfram og gefið fleiri foreldrum, sem munu því miður lenda í þessari stöðu, svona kassa.“

Gleym mér ei gaf Landspítalanum einnig kælivöggu nýlega en slíkar vöggur gefa foreldrum auka tíma með börnunum.
Vilhjálmur hafði sett sér það markmið að safna 500 þúsund krónum fyrir félagið. Það hafðist og gott betur, því hann var búinn að safna um 610 þúsundum þegar hann athugaði síðast í dag.
Söfnunin er þó enn opin næstu vikur og vonar Vilhjálmur að fleiri vilji styrkja félagið. „Ég mun bara halda ótrauður áfram að safna fyrir Gleym mér ei á meðan söfnunin er opin fram í september.“