Erlent

Hver eru hryðjuverkasamtökin ISIS-K?

Elma Rut Valtýsdóttir og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Samtökin ISIS-K voru sett á laggirnar árið 2015 þegar völd ISIS voru sem mest í Írak og Sýrlandi. Samtökin samanstanda af afgönskum og pakitönskum öfgamönnum sem margir hverjir yfirgáfu Talibana, þar sem þeir töldu þá ekki nógu róttæka.
Samtökin ISIS-K voru sett á laggirnar árið 2015 þegar völd ISIS voru sem mest í Írak og Sýrlandi. Samtökin samanstanda af afgönskum og pakitönskum öfgamönnum sem margir hverjir yfirgáfu Talibana, þar sem þeir töldu þá ekki nógu róttæka. Getty/Universal History Archive

Hryðjuverkasamtökin ISIS-K lýstu í kvöld yfir ábyrgð á sprengjuárásunum á alþjóðaflugvellinum í Kabúl fyrr í dag, sem bönuðu hátt í hundrað manns.

ISIS-K er svæðisbundinn undirhópur hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) sem starfar í Afganistan og Pakistan, og eru talin vera öfgafyllstu og ofbeldishneigðustu samtök jihadista í Afganistan.

Samtökin voru sett á laggirnar árið 2015 þegar völd ISIS voru sem mest í Írak og Sýrlandi. Samtökin samanstanda af afgönskum og pakistönskum öfgamönnum sem margir hverjir yfirgáfu Talibana, þar sem þeir töldu þá ekki nógu róttæka.

ISIS-K eru talin bera ábyrgð á mestu ódæðisverkum síðustu ára sem beindust sérstaklega gegn stúlknaskólum og sjúkrahúsum. Þá eru meðlimir samtakanna sagðir hafa ráðist inn á fæðingardeildir og skotið barnshafandi konur og hjúkrunarfræðinga til bana.

Ólíkt Talibönum, sem hafa einungis áhuga á Afganistan, eru ISIS-K hluti af hryðjuverkasamtökunum ISIS, sem breiða anga sína mun víðar í Mið-Austurlöndum og sækir sækir á vestræn og alþjóðleg skotmörk hvar sem færi gefst auk þess sem samtökin hafa beint spjótum sínum að góðgerðasamtökum og fólki í neyð.

Samtökin eru með aðsetur í austurhluta Nangarhar héraðsins í Afganistan, nálægt fíkniefna- og fólksflutningaleiðum til og frá Pakistan.

Þegar mest var, voru meðlimir samtakanna hátt í þrjú þúsund en eru meðlimir talsvert færri nú vegna átaka við bandarískar og afganskar hersveitir og Taliabana. 

ISIS-K eru sögð tengjast Haqqani, öfgafyllsta undirhópi Talibana, sterkum böndum. Þó er sagður vera mikill ágreiningur á milli ISIS-K og Talibana en þau fyrrnefndu saka Talíbana um að hafa yfirgefið sig í heilögu stríði til að semja um frið við Bandaríkin. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×