Íslenska undankeppnin, Söngvakeppnin, verður haldin í febrúar 2022 en þá kemur í ljós hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision 2022 og fylgir eftir frábæru gengi Daða og Gagnamagnsins sem endaði í fjórða sæti í Rotterdam í vor.
Eurovisionlög Daða, Think about things og 10 years, hafa nú verið spiluð samtals yfir 110 milljón sinnum á Spotify og um fjörutíu milljón sinnum á Youtube. Nú hefur verið opnað fyrir innsendingar laga í Söngvakeppnina 2022 á slóðinni songvakeppnin.is.
Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti miðvikudaginn 6. október næstkomandi og í janúar á næsta ári verður svo tilkynnt hvaða lög taka þátt.
„Tíu lög komast í keppnina og verða þau valin með sama hætti og í fyrra. Öllum gefst kostur á að senda inn lög, sem sérstök valnefnd, skipuð fulltrúum FTT, FÍH og RÚV gefur umsögn um. Einnig verður leitað til reyndra og vinsælla lagahöfunda um að semja nokkur laganna,“ segir í tilkynningunni.
![](https://www.visir.is/i/EEB2455561A6989079D7EF0CDB782375DF89D940ADC9B51E724BBF0221160422_713x0.jpg)
Undanúrslitin fara fram 12. og 19. febrúar og verður úrslitakvöldið laugardaginn 26. febrúar þar sem fjögur lög keppast um að verða framlag Íslendinga í Eurovision 2022. Sem fyrr áskilur framkvæmdastjórn keppninnar sér þó leyfi til að hleypa „einu lagi enn“ áfram í úrslitin en þá myndu fimm lög keppa til úrslita á lokakvöldinu.
Erlendar Eurovision-stjörnur munu koma fram í úrslitakeppninni hér á landi. Á síðustu árum hafa erlendar stórstjörnur úr Eurovision heiminum troðið upp í Höllinni á úrslitakvöldinu, Eleni Foureira, Alexander Rybak, Loreen, Robin Bengtsson, Måns Zelmerlöw og fleiri. Á því verður engin breyting í ár.
„RÚV og framkvæmdastjórn keppninnar hvetja alla laga- og textahöfunda landsins til að senda inn lög og halda þannig áfram að móta tónlistarsögu Íslands. Söngvakeppnin snýst um fjölbreytni og eru allar tónlistartegundir velkomnar.“