Gul veðurviðvörun tekur gildi víðast hvar á landinu, að undanskildu norður og austurlandi, síðdegis í dag. Veðrið er þó þegar farið að versna: orðið nokkuð hvasst og úrkoma farin að aukast.
„Í raun er vindurinn þegar byrjaður að aukast. Vindurinn við nokkur fjöll, eins og til dæmis Hafnarfjall og Skálafell, það er yfir og upp að 18 til 19 metrum á sekúndu,“ segir Marcel De Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.
Þegar líði á daginn fari veðrið að versna enn meira. Verstur verði vindurinn á bilinu fimmtán til tuttugu og þrír metrar á sekúndu en hviður geti orðið allt að 40 metrar á sekúndu við fjöll.
„Það verður mjög erfitt ástand á vegum, sérstaklega ef þú ert með tengivagn eða húsbíl, svo að það er ekki ferðaveður fyrir það.“
Ekki sé heldur mælt með því að fólk stundi nokkra útivist í dag og á morgun og fólk hvatt til að fara vel yfir lausamuni utandyra.
„Það er alveg ekki útivistarveður,“ segir Marcel.