Fótbolti

Búið hjá Ba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Demba Ba skorar hjá Liverpool á Anfield í apríllok 2014 eftir skelfileg mistök Steven Gerrard.
Demba Ba skorar hjá Liverpool á Anfield í apríllok 2014 eftir skelfileg mistök Steven Gerrard. EPA/PETER POWELL

Leikmaðurinn, sem var einn stærsti örlagavaldurinn í því að Steven Gerrard vann aldrei ensku úrvalsdeildina með Liverpoool, hefur spilað sinn síðasta fótboltaleik á ferlinum.

Demba Ba hefur tilkynnt það formlega að skórnir séu komnir upp á hillu en hann hefur verið án liðs síðan að hann gekk út hjá svissneska félaginu Lugano. Ba gerði eins árs samning í Sviss í sumar en spilaði bara þrjá leiki og þann síðasta 8. ágúst.

Ba er 36 ára fyrrum senegalskur landsliðsmaður sem vann meðal annars Evrópudeildina með Chelsea og varð einnig tvisvar sinnum tyrkneskur meistari, fyrst með Besiktas 2017 og svo með Istanbul Basaksehir 2020.

„Þvílíkt ferðalag sem þetta hefur verið. Fótboltinn hefur gefið mér svo margar fallega tilfinningar,“ skrifaði Demba Ba á Twitter.

Hann spilaði 99 leiki í ensku úrvalsdeildinni með liðum Chelsea, Newcastle og West Ham og skoraði alls 43 mörk.

Eitt allra frægasta markið hans var væntanlega markið hans á Anfield í apríl 2014. Gerrard rann þá á rassinn og missti boltann í öftustu línu og Ba fór upp og kom Chelsea liðinu í 1-0. Chelsea vann leikinn á endanum 2-0 og þetta tap átti hvað mestan þátt í því að Liverpool missti frá sér Englandsmeistaratitilinn þetta vorið.

Ba spilaði hins vegar aðeins einn leik til viðbótar í ensku úrvalsdeildinni því hann fór til Besiktas í Tyrklandi um sumarið.

Ba kom fyrst í ensku úrvalsdeildina árið 2011 þegar hann kom til West Ham frá þýska félaginu 1899 Hoffenheim. Hann fór frá West Ham til Newcastle og þaðan til Chelsea. Bestu tímabil hans í ensku úrvalsdeildinni voru tvö síðustu tímabilin með Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×