Í kvöld er von á næstu lægð að landinu sem birtist í vaxandi suðaustanátt og rigningu í kvöld og nótt, fyrst á Suður- og Vesturlandi.
Að sögn Veðurstofunnar fara skilin svo norður yfir landið í nótt með úrkomu í öllum landshlutum. Á morgun snýst í vestan 5 til 13 metra á sekúndu en 13 til 20 sunnantil eftir hádegi og jafnvel hvassara í vindstrengjum undir Mýrdalsjökli og í kringum Öræfajökul. Rigning með köflum en þurrt að kalla austast.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag: Vestan og norðvestan 8-13 m/s, en 13-18 með suðurströndinni. Víða rigning, en þurrt á Suðausturlandi og Austfjörðum um kvöldið. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast suðaustanlands.
Á þriðjudag: Norðlæg átt 5-13 m/s og rigning í flestum landshlutum. Líkur á slyddu um norðanvert landið, en styttir upp sunnantil. Kólnandi veður.
Á miðvikudag (haustjafndægur): Norðvestan 8-15 m/s og rigning eða slydda norðanlands, en hægari og þurrt um landið sunnanvert. Hiti frá 2 stigum fyrir norðan, upp í 9 stig með suðurströndinni.
Á fimmtudag: Ákveðin norðvestanátt með rigningu eða slyddu á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Hiti breytist lítið.
Á föstudag: Norðaustlæg átt og dálitlir skúrir eða slydduél norðaustantil á landinu, en rigning með köflum sunnanlands. Svalt í veðri.
Á laugardag: Útlit fyrir stífa norðlæga átt með skúrum eða slydduél norðanlands en bjartviðri syðra.