Erlent

Mistök í breska varnarmálaráðuneytinu setja afganska túlka í hættu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Talíbanar lofuðu bót og betrun en hafa nú þegar skert frelsi kvenna umtalsvert og þá berast fregnir af hefndaraðgerðum gegn þeim sem unnu með erlenda heraflanum.
Talíbanar lofuðu bót og betrun en hafa nú þegar skert frelsi kvenna umtalsvert og þá berast fregnir af hefndaraðgerðum gegn þeim sem unnu með erlenda heraflanum. epa/Stephanie Lecocq

Breska varnarmálaráðuneytið hefur beðist afsökunar á mistökum sem urðu til þess að tölvupóstföng fleiri en 250 afganskra túlka voru gerð opinber og líf þeirra þannig sett í hættu.

Mistökin áttu sér stað þegar starfsmaður ráðuneytisins sendi tölvupóst á afganska túlka sem störfuðu fyrir Breta í Afganistan og höfðu óskað eftir því að fá að ferðast og flytjast til Bretlands.

Þegar pósturinn hafði verið sendur kom í ljós að póstföng allra voru sýnileg öðrum.

Ráðuneytið segist hafa sett sig í samband við alla viðkomandi og veitt þeim ráðleggingar um hvernig draga mætti úr mögulegri áhættu vegna mistakanna. 

Einn þeirra sem fékk tölvupóstinn sagði í samtali við BBC að þau gætu orðið til þess að einhverjir viðtakendanna yrðu teknir af lífi. 

„Við sögðum þessum afgönsku túlkum að við myndum tryggja öryggi þeirra en í staðinn hafa þessi mistök nú stofnað lífi þeirra í hættu að óþörfu,“ sagði skuggavarnarmálaráðherrann John Healey.

Margt af því fólki sem starfaði fyrir erlenda heraflann í Afganistan er nú í felum frá talíbönunum sem hafa tekið yfir stjórn landsins. Samkvæmt Guardian fluttu Bretar 17 þúsund Afgani á brott þegar þeir yfirgáfu landið en margir urðu eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×