Erlent

Skotið á aðstoðarmann Úkraínuforseta

Kjartan Kjartansson skrifar
Serhiy Shefir sést hér standa fyrir aftan Volodýmýr Zelenskíj, forseta, (lengst til hægri) í september árið 2019.
Serhiy Shefir sést hér standa fyrir aftan Volodýmýr Zelenskíj, forseta, (lengst til hægri) í september árið 2019. Vísir/Getty

Ökumaður bifreiðar nánasta ráðgjafa forseta Úkraínu særðist þegar skotið var á bílinn í morgun. Ráðgjafinn slapp ómeiddur en úkraínskir embættismenn lýsa árásinni sem morðtilræði.

Skotið var á bíl Serhij Shefir, ráðgjafa Volodýmýrs Zelenskíj forseta, nærri þorpinu Lesnyky um fimm kílómetra austan við höfuðborgina Kænugarð, að sögn Reuters-fréttastofunnar

Lögregla segir að fleiri en tíu byssukúlum hafi verið skotið á bílinn og að grunur leiki á að um tilraun til morðs að yfirlögðu ráði hafi verið að ræða. Fjölmiðlar á staðnum segjast hafa talið nítján göt eftir byssukúlur á bifreiðinni.

Enginn hefur verið handtekinn vegna árásarinnar til þessa.

Zelenskíj forseti er sjálfur staddur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Talsmenn embættisins segja að forsetinn hafi verið upplýstur um atburðina og að hann ætli sér að tjá sig bráðlega.

Mykhailo Podoljak, ráðgjafi forsetans, segist telja að morðtilræðið megi rekja til glímu Zelenskíj við valdamikla auðkýfinga sem jafnan eru nefndir olígarkar. Hann fullyrti að sjálfvirk vopn hefðu verið notuð við skotárásina.

Úkraínska þingið fjallar um frumvarp forsetans sem er ætlað að draga úr völdum olígarkanna í landinu í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×