Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði er ekki í hópnum þrátt fyrir að hafa náð sér að fullu eftir kórónuveirusmit og spilað síðustu leiki með Al Arabi. Arnar sagði ástæður þess koma í ljós síðar.
„Aron Einar er ekki valinn í þetta verkefni. Eftir mörg góð samtöl á milli mín, Arons og Eiðs Smára tók ég þá ákvörðun að velja Aron ekki. Ástæðan fyrir því er utanaðkomandi og ég get því miður ekki farið neitt nánar út í það í dag.“
Fjarveran útskýrð síðar
Spurður nánar hvort þjóðin ætti ekki skilið skýrari svör vegna fjarveru fyrirliðans sagði Arnar: „Þær munu að sjálfsögðu koma. Þegar ég tala um utanaðkomandi ástæður er það í samráði við Aron. Þetta er landsliðsfyrirliðinn okkar og við erum að vinna okkur saman í gegnum þessar utanaðkomandi ástæður. Þegar tíminn er tilbúinn munum við að sjálfsögðu útskýra það.“
Fráfarandi stjórn KSÍ kom í veg fyrir að Kolbeinn Sigþórsson yrði í síðasta landsliðshópi, eftir ásakanir um kynferðisbrot, en Arnar sagði stjórnina ekki hafa haft neitt að segja um valið núna.
„Nei. Í síðasta glugga var Kolbeinn tekinn út úr hópnum af fráfarandi stjórn sem tók þá ákvörðun. Fyrir þennan glugga höfum við ekki fengið nein bönn. Þjálfarar þurfa að taka ákvörðun um hvað er best fyrir hópinn hverju sinni, og hvernig hópurinn getur fúnkerað best fyrir þessa leiki,“ sagði Arnar.
Segir Rúnar lítið hafa spilað
Aðspurður hvort Kolbeinn hefði verið valinn nú ef hann hefði ekki farið í aðgerð fyrr í mánuðinum sagði Arnar: „Kolbeinn er meiddur.“ En ef hann væri ekki meiddur, hefði hann verið valinn? „Ég er ekki að fara að svara því hér í dag.“
Arnar ítrekaði að allir hefðu gefið kost á sér í landsliðshópnum:
„Aron gaf kost á sér. Það var mín ákvörðun að velja hann ekki. Hann er ekki hættur.“ Sömuleiðis hafi Rúnar Már Sigurjónsson komið til greina en ekki verið valinn:
„Rúnar Már er ekki valinn, eins og margir aðrir. Rúnar hefur ekki spilað nánast neitt síðan í ágúst, til dæmis.“