Innlent

Fundu mikið magn kannabisefna í geymslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að húsráðandi hafi verið handtekinn og sé grunaður um sölu fíkniefna.
Í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að húsráðandi hafi verið handtekinn og sé grunaður um sölu fíkniefna. Vísir/VIlhelm

Lögreglan á Suðurnesjum fann mikið magn kannabisefna í geymslu íbúðarhúss í umdæmi lögreglunnar í vikunni. Efnin fundust þegar húsleit var gerð að fenginni heimild en einnig fundust í geymslunni tól sem notuð eru til fíkniefnasölu.

Einnig fundust peningar í geymslunni.

Í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að húsráðandi hafi verið handtekinn og sé grunaður um sölu fíkniefna. Hann er sagður hafa játað að eiga fíkniefnin en neitað að ætla að selja þau.

Kannabisefni fundust einnig á karlmanni sem var að koma til landsins frá Amsterdam í gær.

Þá handleggsbrotnaði erlendur maður í fjórhjólaslysi við Hópsnes í gær. Hann missti stjórn á hjóli sínu og velti því en þetta var annað fjórhjólaslysið í umdæmi lögreglunnar í vikunni. Í fyrra slysinu voru tveir á því þegar það valt en þau slösuðust ekki alvarlega.

Lögreglan segir einnig frá umferðaróhappi á Reykjanesbrautinni í gærmorgun þar sem ekið var aftan á bíl. Ökumaður bílsins sem ekið var á var fluttur til aðhlynningar í sjúkrabíl en hinn var handtekinn þar sem hann játaði að vera undir áhrifum fíkniefna.

Þar að auki var ekið á gangandi vegfaranda í Sandgerði í vikunni en sá hlaut opið beinbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×