Innlent

Mikill viðbúnaður vegna vopns sem reyndist vera eftirlíking

Eiður Þór Árnason skrifar
Vopnaðir sérsveitarmenn voru meðal annars sendir á staðinn.
Vopnaðir sérsveitarmenn voru meðal annars sendir á staðinn. Vísir/Vilhelm

Mikill viðbúnaður var við Síðumúla í Reykjavík á þrettánda tímanum í dag þegar tilkynning barst um að karlmaður virtist halda á skotvopni. 

Þegar lögregla og sérsveit ríkislögreglustjóra kom á vettvang fannst maðurinn í húsakynnum fyrirtækis við götuna en skotvopnið reyndist vera eftirlíking. Karlmaðurinn, sem er á fimmtugsaldri, er starfsmaður fyrirtækisins og var handtekinn á vettvangi. 

Hann er ekki grunaður um refsiverða háttsemi en var færður á lögreglustöð til skýrslutöku. Þykja málsatvik nú liggja nokkuð ljóst fyrir að mati lögreglu.

Fólki eðlilega brugðið

Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, stýrði aðgerðum á vettvangi. Kristján segir í samtali við fréttastofu að borgari hafi tilkynnt neyðarlínu að hann hafi mætt manni sem virtist vera með vopn. 

„Við í rauninni bregðumst við samkvæmt því, setjum okkar viðbúnað af stað, ræsum út sérsveit, vopnaða lögreglumenn frá [lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu] og í framhaldi af því er einn aðili handtekinn inn í húsinu þar sem við finnum eftirlíkingu af byssu.“

Kristján segir um að ræða nákvæma eftirlíkingu svo það sé mjög eðlilegt að hún hafi verið talin ekta. Fólki í nágrenninu væri eðlilega brugðið og mikill áhugi hafi verið á aðgerðum lögreglu. Málið er nú komið til rannsóknardeildar. 

Fréttin hefur verið uppfærð með viðtali við yfirlögregluþjón og upplýsingum úr tilkynningu lögreglu.

Kjötvinnslan Ferskar kjötvörur er meðal annars til húsa í Síðumúla 34 sem sést fjær á myndinni.Sölvi Breiðfjörð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×