Leikjavísir

EA Sports íhuga að slíta sambandinu við FIFA

Samúel Karl Ólason skrifar
Kylian Mbappé prýðir hulstur FIFA 22.
Kylian Mbappé prýðir hulstur FIFA 22. EA Sport

Forsvarsmenn leikjafyrirtækisins EA Sports eru sagðir íhuga að slíta sambandi þeirra við FIFA-fótboltasambandið. Það fæli í sér að breyta nafni fótboltaleikjanna vinsælu. Meðal annars er það vegna þess að leiðtogar FIFA vilja meira ein milljarð dala á fjögurra ára fresti.

Það eru EA-liðar ekki tilbúnir til að borga.

EA og FIFA hafa átt í viðræðum undanfarin tvö ár sem hafa engum árangri skilað.

Í síðustu viku sendu yfirmenn EA út tilkynningu um að FIFA 22 hefði selst einstaklega vel. Þar kom fram að verið væri að skoða að breyta nafni leikjanna og að endurskoða samninginn við FIFA. Sá samningur snýr eingöngu að nafni leikjanna en notkun nafna fótboltaliða og leikmanna snúa að fjölda annarra samninga sem fyrirtækið gerir við knattspyrnusambönd, félög og leikmenn.

FIFA-leikirnir eru einhverjir þeir vinsælustu í heimi. Nýr leikur hefur verið gefinn út á hverju ári í meira en tvo áratugi. Á þeim tíma hefur EA hagnast um meira en 20 milljarða dala og FIFA hefur fengið þar af um 150 milljónir dala á ári.

Samkvæmt frétt New York Times vilja leiðtogar EA nú meira en tvöfalda þá upphæð.

Í frétt miðilsins segir að deilurnar snúist einnig um það að EA vilji fá rétt til að gera meira en að nota bara nafnið FIFA og nafn heimsmeistaramótsins. Meðal annars vilji forsvarsmenn fyrirtækisins fá réttindi til að sýna brot úr raunverulegum leikjum.

Búist er við niðurstöðu í viðræðunum á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×