Körfubolti

Chicago borg á körfuboltameistara á nýjan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Candace Parker hleypur með boltann eftir lokaflautið og lið hennar Chicago Sky var orðið WNBA meistari.
Candace Parker hleypur með boltann eftir lokaflautið og lið hennar Chicago Sky var orðið WNBA meistari. Getty/Stacy Revere

Chicago hefur ekki eignast bandaríska meistara í körfuboltanum síðan að Michael Jordan yfirgaf Chicago Bulls í lok síðustu aldar. Það breyttist í nótt. Candace Parker ólst upp sem mikill aðdáandi Jordan og Bulls liðsins og snéri aftur „heim“ og vann titilinn á sínu fyrsta tímabili með liðinu.

Chicago Sky liðið tryggði sér WNBA titilinn í gær, þann fyrsta í sögu félagsins, með sex stiga sigri í fjórða leiknum á móti Phoenix Mercury, 80-74. Sky vann einvígið 3-1.

Phoenix Mercury var ellefu stigum yfir um tíma í leiknum og það leit út fyrir að Phoenix konur ætluðu að tryggja sér annan leik. Sky liðið var á öðru máli, vann síðustu fimm mínútur leiksins 15-2 og tryggði sér titilinn.

Sky liðið vann bara helminginn af deildarleikjum sínum og var langt frá því að vera sigurstranglegasta liðið í úrslitakeppninni. Liðið endaði í sjötta sæti í deildinni og hefur lið svo neðarlega í deildinni aldrei orðið áður WNBA meistari.

Í úrslitakeppninni small allt saman og liðið sló bæði Dallas Wings og Minnesota Lynx þar sem spilaður var bara einn leikur og vann síðan 3-1 sigur á Connecticut Sun í undanúrslitunum.

Kahleah Copper var valin mikilvægasti leikmaður úrslitanna en hún fór fyrir liðinu í baráttu og var með 17,0 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í lokaúrslitunum.

Framlag leikstjórnandans, Courtney Vandersloot, var líka mikið en hún var með 10 stig, 15 stoðsendingar og 9 fráköst í síðasta leiknum.

Tvær af bestu leikmönnum liðsins eru báðar frá Illinois en voru búnar að vera mislengi með Sky liðinu. Allie Quigley, sem spilaði um tíma með Helenu Sverrisdóttur í Evrópu, hefur verið með liðinu frá 2013 og skoraði 26 stig og fimm þrista í leiknum.

Hinn leikmaðurinn er Candace Parker, sem varð meistari á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Parker var með 16 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar í fjórða og síðasta leiknum. Parker var mikill Chicago Bulls og Michael Jordan aðdáandi þegar hún var yngri.

Þetta var fyrsti WNBA titilinn Chicago Sky og fyrsti körfuboltatitilinn í borginni síðan að Chicago Bulls vann sinn sjötta titil á átta tímabilum sumarið 1998.

Parker er 35 ára gömul og hafði áður unnið titilinn með liði Los Angeles Sparks sem hún lék með í tólf ár. Hún hefur tvisvar sinnum verið valin mikilvægasti leikmaður deildarinnar og fékk þau verðlaun líka í úrslitaeinvíginu 2016.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×