Körfubolti

Sögu­legur samningur fyrir kvenna­þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dawn Staley að stýra bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í sumar.
Dawn Staley að stýra bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í sumar. EPA-EFE/KIYOSHI OTA

Dawn Staley gerði á dögum mjög merkilegan samning um að halda áfram að þjálfa lið University of South Carolina í bandaríska körfuboltanum.

Það kom engum á óvart að skólinn hafi viljað halda þessum frábæra þjálfara en það var sögulegt hvað skólinn var tilbúinn að borga henni vel.

Samningur hennar og skólans er upp á sjö ár og fær hún 22,4 milljónir dollara fyrir þessi sjö ár eða 2,9 milljarða íslenskra króna.

Í yfirlýsingu frá skólanum kemur fram að Staley sé nú launahæsti svarti þjálfarinn í háskólakörfuboltanum og ein af launahæstu körfuboltaþjálfurum í landinu.

Staley þykir einn besti körfuboltaþjálfarinn í boltanum í dag og þessi samningur ber vott um það.

Dawn Staley er 51 árs og var á sínum tíma valin ein ef fimmtán bestu leikmönnum í sögu WNBA-deildarinnar. Hún hefur þjálfað skólalið University of South Carolina frá árinu 2008. Hún hefur byggt upp stórveldi í bandaríska háskólaboltanum á þessum tíma.

Staley gerði liðið að háskólameisturum 2017 og fór með það alla leið í hin fjögur fræknu á síðasta tímabili. Staley hefur einnig gert bandaríska landsliðið bæði að heimsmeisturum og Ólympíumeisturum á síðustu árum.

„Ég gerði þetta ekki fyrir mig sjálfa,“ sagði Dawn Staley við USA Today.

„Ég er mikil baráttukonu fyrir jafnrétti og jöfnum launum karla og kvenna. Þetta er risayfirlýsing fyrir konur og fyrir svartar konur. Ekki bara fyrir íþróttirnar heldur fyrir öll Bandaríkin þegar við skoðum hversu lægri laun konur eru að fá í samanburði við menn,“ sagði Dawn Staley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×