Því hefur lengi verið spáð að loftlagsbreytingar af völdum manna muni leika Afríku grátt þrátt fyrir að íbúar álfunnar beri aðeins ábyrgð á innan við fjórum prósentum uppsafnaðrar losunar mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum.
Þurrkar og uppskerubrestur vegna þeirra er nú þegar stórt vandamál í Afríku. Margar stærstu borgir álfunnar standa við sjávarsíðuna og almenn fátækt íbúa gerir þeim erfitt fyrir að aðlagast breyttu umhverfi.
Loftslagsbreytingarnar eru þegar komnar fram. Þurrkar hafa orðið skæðari og mikil flóð urðu í austan- og vestanverðri álfunni í fyrra. Þá gekk sögulega stór engisprettufaraldur yfir í fyrra og árið áður.
Áætlað er að um 1,2 milljónir manna hafi hrakist frá heimkynnum sínum vegna storma og flóða í Afríku í fyrra. Það er meira en tvöfalt fleiri en lentu á hrakhólum vegna hernaðarátaka.
Skýrsluhöfundar WMO telja að fjárfesta þurfi á bilinu þrjátíu til fimmtíu milljarða dollara í aðlögunaraðgerðir í Afríku sunnan Sahara á hverju ári til að forðast enn verri afleiðingar. Það jafngildir 2-3% af þjóðarframleiðslu heimshlutans, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Stóru fjallajöklarnir hverfa fyrir miðja öldina
Í skýrslunni er reiknað með því að stóru íshellurnar þrjár í austanverðri Afríku; á Kilimanjaro í Tansaníu, Keníufjalli í Kenía og Rwenzoris í Úganda, hverfi alveg á fimmta áratug þessarar aldar.
„Hratt hop síðustu jöklanna í austanverðri Afríku, sem er reiknað með að bráðni alveg í náinni framtíð, er merki um ógn óafturkræfra breytinga á jarðkerfinu,“ sagði Petteri Taalas, forstjóri WMO, í formála skýrslunnar.