Fótbolti

„Stefni klárlega á EM næsta sumar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sif Atladóttir hefur leikið 82 landsleiki.
Sif Atladóttir hefur leikið 82 landsleiki. vísir/bára

Þrátt fyrir vera orðinn 36 ára og á heimleið eftir þrettán ár í atvinnumennsku ætlar Sif Atladóttir ekkert að gefa sæti sitt í landsliðinu eftir og ætlar að spila með því á EM næsta sumar.

Eftir tveggja ára fjarveru var Sif valinn aftur í landsliðið fyrir leikinn gegn Hollandi í undankeppni HM í síðasta mánuði. Hún var aftur valinn í landsliðshópinn fyrir leikina sem framundan eru í undankeppninni. Ísland mætir Tékklandi á föstudaginn og Kýpur á þriðjudaginn. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

„Ég kem inn sem reynslumikill leikmaður og geri mitt til að hjálpa liðinu. Svo lengi sem ég stend mig vel úti er ég með. Ég er hérna til að berjast um sæti í liðinu en fyrst og fremst er ég að hjálpa því að ná okkar markmiðum,“ sagði Sif á blaðamannafundi í dag.

Eftir langa dvöl í atvinnumennsku snýr Sif aftur heim eftir tímabilið. Enn er þó ekki ljóst hvar hún spilar á næsta sumri. Hún ætlar fyrst að klára tímabilið með Kristianstad í Svíþjóð og tekur svo ákvörðun um næsta skref á ferlinum.

„Ég hef alveg heyrt í félögum en tek ekki lokaákvörðun fyrr en ég er búin með tímabilið úti. Þá sest ég yfir þetta og íhuga stöðuna alvarlega. Ég á tvo leiki eftir svo það er smá bið en vonandi kemur það vonandi áður en ég kem heim,“ sagði Sif.

Hún ætlar sér að fara með íslenska landsliðinu á EM á Englandi næsta sumar. Það yrði þá hennar fjórða Evrópumót með landsliðinu.

„Ég stefni klárlega á EM á næsta sumar. Á meðan ég er frísk, líður vel, hef gaman að þessu og stend mig og minna krafta er óskað er ég alltaf tilbúin að spila fyrir land og þjóð,“ sagði Sif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×