Handbolti

Lovísa í hlé frá handbolta: „Ég er búin að missa gleðina“

Sindri Sverrisson skrifar
Valur, KA/Þór, Olís deild kvenna, vetur 2021, handbolti, HSÍ
Valur, KA/Þór, Olís deild kvenna, vetur 2021, handbolti, HSÍ Hulda Margrét

„Að mæta á æfingu var orðin kvöð og mér leið ekki vel inn á vellinum,“ segir landsliðskonan Lovísa Thompson, leikmaður Vals, sem hefur ákveðið að taka sér hlé frá handbolta.

Lovísa á 22 ára afmæli í dag en hún heldur meðal annars upp á það með fyrrnefndri ákvörðun sem hún viðurkennir að hafi verið mjög erfitt að taka. Hún sé hins vegar búin að missa gleðina sem fylgi því að æfa og spila handbolta. Þetta segir Lovísa í pistli sem hún birti á Instagram í dag.

„Síðustu dagar og vikur hafa verið erfiðar en mér hefur ekki liðið vel. Mér hefur þótt erfitt að gera það sem ég elska mest (handbolti) en líkaminn og hausinn hafa ekki verið að vinna saman. Ég ætla því að taka mér pásu frá handbolta eða þangað til að ég finn löngunina aftur,“ segir Lovísa.

Lovísa hafði ekki lokið grunnskóla þegar hún sló fyrst í gegn sem handboltakona með liði Gróttu. Hún varð tvívegis Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari með liðinu, og hefur svo einnig orðið Íslands- og bikarmeistari með Val.

„Þetta skref er mér mjöög erfitt en þeir sem þekkja mig vita að ég hef lagt líf og sál í íþróttina lengi vel. Ég er búin að missa gleðina og var farin að valda sjálfri mér og liðsfélögum mínum vonbrigðum. Að mæta á æfingu var orðin kvöð og mér leið ekki vel inn á vellinum,“ segir Lovísa sem hefur nú sett sér það markmið að „setja sjálfa sig í fyrsta sæti, læra að slaka á og finna gleðina á ný,“ eins og hún orðar það.

Færslu Lovísu má sjá hér að neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×