Viðvaranirnar taka gildi á milli klukkan tvö og átta í nótt og eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Suðausturlandi og miðhálendinu. Viðvaranirnar gilda víðast fram að hádegi nema á hálendinu en þar gildir viðvörun þar til á miðnætti annað kvöld.
Á höfuðborgarsvæðinu má búast við snjókomu eða slyddu en síðar rigningu, einkum í efri byggðum þar sem færð gæti orðið erfið. Búast má við snjókomu eða slyddu, einkum á Hellisheiði og Mosfellsheiði og jafnvel í uppsveitum. Líkur eru á samgöngutruflunum á Suðurlandi.

Við Faxaflóa má einnig búast við talsverðri slyddu og jafnvel snjókomu og svo rigningu þegar líða fer á morgundaginn. Gæti það valdið því að samgöngutruflanir verði á Reykjanesbraut og víðar á Suðurnesjum.
Á Suðausturlandi má búst við norðaustan hvassviðri eða stormi en hvassast verður í Öræfum og Mýrdal. Vindhviður þar gætu náð allt að 35 til 40 m/s. Varað er við því að fólk sé á ferðinni í ökutækjum sem viðkvæm eru fyrir vindum.
Á miðhálendinu má búast við norðaustan 15 til 23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Færð og skyggni verður lélegt.