Handbolti

Sigurganga Magdeburg heldur áfram | Melsungen sigraði Íslendingaslaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Magdeburg í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Magdeburg í kvöld. Peter Niedung/NurPhoto via Getty Images)

Það voru Íslendingar í eldlínunni í öllum fjórum leikjum kvöldsins í þýska handboltanum. Magdeburg er enn með fullt hús stiga eftir fjögurra marka sigur gegn Hannover-Burgdorf og Melsungen vann öruggan níu marka sigur í Íslendingaslag kvöldsins.

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson áttu báðir fínan leik fyrir Magdeburg gegn Hannover-Burgdorf í kvöld. Ómar Ingi skoraði fjögur og Gísli Þorgeir sex, en lokatölur urðu 27-31, Magdeburg í vil.

Magdeburg er nú með sex stiga forskot á toppi deildarinnar með 28 stig af 28 mögulegum.

Elvar Örn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson voru allir í liði Melsungen sem heimsótti Daníel Þór Ingason og félaga hans í HBW Balingen-Weilstetten. Sigur gestanna var í raun aldrei í hættu, en Melsungen hafði 13 marka forystu í hálfleik. Lokatölur 25-34, en Melsungen er nú í sjöunda sæti deildarinnar með 16 stig, tíu stigum meira en Balingen sem situr í næst neðsta sæti deildairnnar.

Þá töpuðu Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer gegn botnliði Minden, 25-21, og Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Stuttgart sem tapaði gegn TuS N-Lübbecke, 27-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×