Körfubolti

Birnirnir frá Memphis juku enn á óhamingju Lakers-manna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlutirnir ganga ekki alveg upp hjá LeBron James og félögum í Los Angeles Lakers.
Hlutirnir ganga ekki alveg upp hjá LeBron James og félögum í Los Angeles Lakers. getty/Justin Ford

Vandræði Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta halda áfram en í nótt tapaði liðið fyrir Memphis Grizzlies, 108-95.

Memphis var án tveggja af sínum bestu mönnum, Ja Morant og Dillon Brooks, en það kom ekki að sök. Jaren Jackson skoraði 25 stig og Desmond Bane 23 fyrir Memphis sem hefur unnið sex af síðustu sjö leikjum sínum. Liðið er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.

Anthony Davis skoraði 22 stig fyrir Lakers og LeBron James var með þrefalda tvennu; tuttugu stig, tíu fráköst og ellefu stoðsendingar. Lakers er í 6. sæti Vesturdeildarinnar með þrettán sigra og þrettán töp.

Utah Jazz vann sinn sjötta leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Philadelphia 76ers á útivelli, 96-118.

Átta leikmenn Utah skoruðu tíu stig eða meira í leiknum. Donovan Mitchell var stigahæstur með 22 stig og Rudy Gobert skoraði sautján stig og tók 22 fráköst. Joel Embiid skoraði nítján stig fyrir Philadelphia og Tobias Harris sautján.

Þá vann San Antonio Spurs góðan sigur á Denver Nuggets, 123-111. Derrick White var stigahæstur hjá San Antonio með 23 stig og Lonnie Walker kom næstur með 21 stig.

Aaron Gordon skoraði 25 stig fyrir Denver og Nikola Jokic var með þrefalda tvennu; 22 stig, þrettán fráköst og tíu stoðsendingar.

Úrslitin í nótt

  • Memphis 108-95 LA Lakers
  • Philadelphia 96-118 Utah
  • San Antonio 123-111 Denver

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×