Á vef Veðurstofunnar segir að langt suðvestur í hafi sé ört vaxandi lægð sem hreyfist allhratt norðaustur á bóginn. Í kvöld nálgast skil lægðarinnar svo hvessa tekur úr suðaustri. Síðan þykknar upp og hlýnar.
„Gengur í suðaustanstorm með rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands í nótt og fyrramálið, en hægara og úrkomuminna fyrir norðan og austan. Suðaustanstrekkingur og dálítil rigning eða skúrir síðdegis og áfram svipað veður á sunnudag. Eftir helgi snýst líklega í norðanáttir og kólnar þá aftur,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Suðaustan og austan 15-23 m/s og talsverð rigning eða slydda SA-til um morguninn, annars úrkomuminna, en dregur síðan hægt úr vindi og úrkomu. Suðaustan 10-18 og rigning með köflum undir kvöld, en þurrt á N-landi. Hiti 1 til 7 stig.
Á sunnudag: Suðlæg átt, 10-18 m/s, hvassast syðst og skúrir eða slydduél, en þurrt að mestu á N- og A-landi. Hiti 0 til 6 stig.
Á mánudag: Suðlæg átt, yfirleitt 5-10 m/s, skúrir eða él og hiti 0 til 4 stig, en bjartviðri N- og A-lands og vægt frost þar.
Á þriðjudag: Stíf norðan- og norðaustanátt með rigningu eða slyddu, en snjókomu fyrir norðan. Hiti kringum frostmark.
Á miðvikudag: Lítur út fyrir hæga norðlæga átt með dálitlum éljum, en úrkomulítið sunnan heiða og vægt frost.
Á fimmtudag: Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með slyddu eða snjókomu og heldur hlýnandi veður.