Sport

Jóhanna synti á HM og fær danskt nudd og sjúkraþjálfun

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir keppir í 100 og 50 metra skriðsundi á HM.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir keppir í 100 og 50 metra skriðsundi á HM. SSÍ

Eini keppandi Íslands á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH, hóf keppni í Abú Dabí í dag þegar hún stakk sér til sunds í 100 metra skriðsundi.

Jóhanna Elín synti á 55,27 sekúndum og varð í 34. sæti af 89 keppendum. Hún var hálfri sekúndu frá sínum besta tíma en hefði þurft að synda á 53,86 sekúndum til að komast áfram í undanúrslitin.

Þrír Íslendingar áttu keppnisrétt á HM en Ólympíufararnir Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttur ákváðu að taka ekki þátt.

Eyleifur Jóhannesson er með Jóhönnu í för, sem þjálfari og liðsstjóri. Í tilkynningu frá Sundsambandi Íslands kemur fram að sambandið njóti svo aðstoðar danska landsliðsins varðandi aðgang að nuddara og sjúkraþjálfara fyrir Jóhönnu.

Jóhanna syndir aftur á mánudaginn þegar hún keppir í 50 metra skriðsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×