„Hættið að ofsækja frelsið. Sleppið Julian Assange,“ hrópuðu um þrjátíu mótmælendur fyrir utan annars friðsælt sendiráð Bretlands í Reykjavík í dag.
Þar stóð Ögmundur Jónasson fyrrverandi dómsmálaráðherra þriðja daginn í röð en á mánudag afhenti hann bréf til sendiherrans með þessum kröfum. Í dag var Kristinn Hrafsson ritstjóri WikiLeaks einnig mættur á staðinn.
„Bandaríkjamenn krefjast þess að hann verði framseldur til Bandaríkjanna. Þar á hann yfir höfði sér 170 ára fangelsi. Við ætlum ekki að láta þetta yfir okkur ganga og ég segi okkur vegna þess að þetta mál kemur okkur öllum við,“ sagði Ögmundur
Julian Assange hefur verið í einangrun í mesta öryggisfangelsi Breta frá því lögregla ruddist inn í sendiráð Ekvador í Lundúnum í apríl 2019 og handtók hann. Ritstjóri WikiLeaks segir einangrunina eðlilega farna að draga mjög af honum. Mótmæli sem þessi skipti máli.

„Það verður að mótmæla þessu. Eins og Ögmundur segir þá er málfrelsið undir. Frelsi fjölmiðla er undir. Líf einstaklings er einnig undir sem er nú að fara að eyða sínum þriðju jólum í mesta öryggisfangelsi Bretlands fjarri fjölskyldu sinni. Fyrir þann eina glæp að stunda blaðamennsku. Þannig að þetta er þitt mál, þetta er mitt mál, þetta er mál okkar allra,“ sagði Kristinn.
Hinn 10. desember snéri Hæstiréttur Bretlands við dómi um framsalskröfu Bandaríkjastjórnar og heimilaði að Assange verði framseldur. Kristinn og Ögmundur segja að íslensk stjórnvöld eigi að láta í sér heyra.
„Taka opinberlega undir kröfu okkar um að Julian Assange verði látinn laus úr fangelsi. Þetta á að vera útlátalaust fyrir íslensk stjórnvöld að gera og það ber þeim að gera,“ sagði Ögmundur Jónasson. Vaxandi þrýstingur væri um allan heim á stjórnvöld í Bretlandi að sleppa Assange.