Körfubolti

Morant og Memphis skelltu Lakers aftur niður á jörðina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og Ja Morant voru stigahæstir á vellinum þegar Los Angeles Lakers og Memphis Grizzlies mættust.
LeBron James og Ja Morant voru stigahæstir á vellinum þegar Los Angeles Lakers og Memphis Grizzlies mættust. getty/Justin Ford

Eftir langþráðan sigur á Houston Rockets í gær var liði Los Angeles Lakers skellt aftur niður á jörðina þegar það sótti Memphis Grizzlies heim í NBA-deildinni í nótt.

Ja Morant skoraði 41 stig fyrir Memphis sem vann fimm stiga sigur, 104-99. Memphis lenti fjórtán stigum undir í seinni hálfleik en gafst ekki upp, kom til baka og vann sinn þriðja leik í röð. Morant fór mikinn í seinni hálfleik þegar hann skoraði 25 stig. Hann skoraði svo tíu af síðustu ellefu stigum Memphis sem er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.

LeBron James, afmælisbarn dagsins, skoraði 37 stig fyrir Lakers og tók þrettán fráköst. Lakers hefur tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum.

Fáliðað lið Los Angeles Clippers sigraði Boston Celtics, 82-91, á útivelli. Marcus Morris skoraði 23 stig fyrir Clippers og þeir Eric Bledsoe, Terance Mann og Luke Kennard sautján stig hver.

Jaylen Brown skoraði þrjátíu stig fyrir Boston sem hitti aðeins úr fjórum af 42 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Í annað sinn á þremur dögum vann Chicago Bulls Atlanta Hawks, 131-117. Þetta var fimmti sigur Chicago í röð en liðið er í 2. sæti Austurdeildarinnar. Zach LaVine skoraði 25 stig fyrir Chicago og DeMar DeRozan tuttugu. Nikola Vucevic var með sextán stig og tuttugu fráköst.

Trae Young skoraði 26 stig og gaf ellefu stoðsendingar fyrir Atlanta sem var án fimmtán leikmanna vegna meiðsla og veikinda.

Úrslitin í nótt

  • Memphis 104-99 LA Lakers
  • Boston 82-91 LA Clippers
  • Chicago 131-117 Atlanta
  • Detroit 85-94 NY Knicks
  • Indiana 108-116 Charlotte
  • Phoenix 115-97 Oklahoma
  • Portland 105-120 Utah
  • Sacramento 95-94 Dallas

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×