Lögregla greip til þess ráðs að skipta út kókaíninu fyrir gerviefni. Tveimur dögum eftir tollskoðun bílsins sótti parið bílinn á tollsvæði Smyril Line í Þorlákshöfn og óku bílnum að heimili sínu í Reykjavík, en parið er búsett hér á landi.
Lögreglan fylgdist grannt með parinu en maðurinn sótti gerviefnin sem falin voru í bílnum degi eftir komu þeirra til Reykjavíkur. Maðurinn var umsvifalaust handtekinn af lögreglu og konan var handtekin á heimili sínu skömmu síðar.
Stórfellt fíkniefnabrot
Við húsleit lögreglu fundust rúm 270 grömm af kókaíni, fimm grömm af MDMA og tæpar 1500 E-töflur. Þar að auki lagði lögregla hald á fjölmarga farsíma, sem hún fann við húsleitina, og rúmar tvö þúsund evrur í reiðufé eða tæpar þrjú hundruð þúsund íslenskra króna.
Parið er ákært fyrir stórfellt fíkniefnabrot sem varðar allt að tólf ára fangelsi. Lögregla krefst þess einnig að bifreið af gerðinni VW Touran sem fíkniefnin fundust í verði gerð upptæk.
Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega stóð að bíllinn hafi verið fluttur með Norrænu en bíllinn kom hingað til lands með flutningaskipinu Mistral sem er í eigu Smyril Line. Fyrirtækið á og rekur Norrænu.