Ríkisstjórnin kastaði björgunarlínu til veitingahúsa sem hafa þurft að sæta miklum takmörkunum á starfsemi sinni vegna sóttvarnaaðgerða í síðustu viku með frumvarpi sem kveður á um að veitingastaðir, sem hafa orðið fyrir minnst tuttugu prósenta tekjufalli frá desember til og með mars, geti fengið styrki til þess að mæta tapinu.
Málið á að afgreiða hratt en fyrsta umræða um frumvarpið fór fram í síðustu viku og umsagnarfrestur hjá efnahags- og viðskiptanefnd rennur út í dag.
Jóna Fanney Svavarsdóttir, fer fyrir samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu sem um fimm hundruð rekstraraðilar tilheyra. Hún segist vonsvikin að styrkirnir, sem hún telur reyndar réttara að kalla bætur, nái einungis til veitingastaða.
„Það er ekki inni í þessu neitt sem við kemur til dæmis afþreyingu og menningarferðaþjónustu, eins og söfn eða viðburðir. Okkur þykir þetta mjög einkennileg forgangsröðun að byrja á einum hóp í stað þess að byrja á heildaraðgerðum sem gagnast öllum,“ segir Jóna sem rekur einnig Eldhúsferðir í Húnavatnshreppi.

Samhliða fjöldatakmörkunum hafi afbókanir streymt inn.
„Vandamálið er að skaðinn er skeður. Þó svo að stjórnvöld núna tali núna um að fara slaka á og slaka jafnvel verulega á, er það svo að þessar afbókanir sem koma alltaf í kjölfarið á hertum reglum koma ekkert til baka.“
Hún gagnrýnir að ekki hafi verið til viðbragðsáætlun fyrir fyrirtækin þegar aðgerðir voru hertar á ný og óttast uppsagnir.
„Við þessar síðustu sóttvarnaaðgerðir sjá einirkjar og lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu fram á mjög þungan róður og jafnvel skipsbrot rétt undan landi. Og það er ekki rými til þess að bíða af því lausafjárstaðan er í mínus hjá fjölda fólks af því það vantar upp á hverjum mánuði. Það eru ekki tekjur á móti kostnaðinum,“ segir Jóna.