Erlent

Rússar ræða að senda vopn til Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskur hermaður á víglínunni í austurhluta landsins.
Úkraínskur hermaður á víglínunni í austurhluta landsins. AP/Evgeniy Maloletka

Vladimir Vasilyev, leiðtogi stjórnmálaflokksins Sameinað Rússland, sem er flokkur Vladimírs Pútin, forseta, kallaði eftir því í dag að Rússar útveguðu aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu vopn og birgðir. Það ætti að gera til að verja aðskilnaðarsinnana gegn her Úkraínu og vegna vopnasendinga til Úkraínu úr vestri.

Fyrr í dag hafði Andrei Turchak, þingmaður og háttsettur meðlimur Sameinaðs Rússlands, slegið á svipaða strengi og sagt að flokkurinn hefði miklar áhyggjur af vopnasendingum til Úkraínu, samkvæmt frétt Moscow Times.

Skömmu eftir innrás Rússa á Krímskaga árið 2014 gerðu aðskilnaðarsinnar í Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu vart um sig og lögðu undir sig hluta landsins. Rússar hafa stutt við bakið á þeim og meðal annars með því að senda hermenn og vopn til þeirra.

Vert er að benda á að loftvarnaeldflaugin sem aðskilnaðarsinnar notuðu til að skjóta niður farþegaþotuna MH17 árið 2014.

Sjá einnig: Saka Bandaríkin um að auka spennu í Austur-Evrópu

Yfirvöld í Kænugarði áætla að átökin í austurhluta landsins hafi kostað um fimmtán þúsund manns lífið.

Nú hafa Rússar komið tugum þúsunda hermanna fyrir við landamæri Úkraínu og halda umfangsmiklar heræfingar hringinn í kringum landið. Óttast er að þeir ætli sér að gera aðra innrás í landið. Ráðamenn í Rússlandi krefjast þess að Úkraínu verði meinaður aðgangur að NATO í framtíðinni. Þá hafa þeir krafist þess að Atlantshafsbandalagið fjarlægi allar hersveitir og vopn úr Austur-Evrópu.

Það á við ríki eins og Pólland, Eystrasaltsríkin, Rúmeníu og Búlgaríu.

Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa sagt að ekki komi til greina að verða við þeim kröfum. Tilkynntu var í gær að hersveitir yrðu settar í viðbragðsstöðu og fleiri herskip og orrustuþotur yrðu sendar til aðildarríkja í Austur-Evrópu.

Ekki stendur til að verða við þessum kröfum.

Sjá einnig: Rússar búast við svörum við kröfum sínum í næstu viku

Yfirvöld í Kænugarði hafa á undanförnum dögum sagt að Rússar séu ekki með nægilega marga hermenn til staðar til að gera allsherjarinnrás í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Hernaðaruppbygging Rússa heldur áfram

Hernaðaruppbygging Rússa við landamæri Úkraínu heldur áfram en viðræður um spennuna í Austur-Evrópu virðast hafa skilað litlum árangri. Yfirvöld í Bretlandi saka Rússa um að ætla sér að gera innrás í Úkraínu og koma á laggirnar ríkisstjórn sem væri hliðholl Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×