Handbolti

Ómar Ingi aðeins annar sem verður markakóngur þýsku deildarinnar og EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon fagnar einu 59 marka sinna á EM.
Ómar Ingi Magnússon fagnar einu 59 marka sinna á EM. getty/Kolektiff Images

Á innan við einu ári varð Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handbolta, markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar og Evrópumótsins.

Ómar Ingi skoraði 59 mörk og var langmarkahæstur á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu sem lauk í gær. Hann skoraði tólf mörkum meira en Daninn Mikkel Hansen.

Á síðasta tímabili varð Ómar Ingi markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar þegar hann skoraði 274 mörk fyrir Magdeburg. Þá varð hann næstmarkahæsti leikmaður EHF-bikarsins sem Magdeburg vann.

Ómar Ingi er aðeins annar leikmaðurinn í sögunni sem nær því að vera markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar og EM. Hinn er Daninn Lars Christiansen.

Christiansen varð tvívegis markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni, 2003 og 2005. Hann lék með Flensburg á árunum 1996-2010 og varð þýskur meistari með liðinu 2004, bikarmeistari 2003, 2004 og 2005, vann EHF-bikarinn 1997 og Evrópukeppni bikarhafa 2001.

Christiansen varð einnig markakóngur EM 2008 þar sem Danir stóðu uppi sem sigurvegarar. Hann skoraði 44 mörk líkt og Nikola Karabatic og Ivano Balic. Christiansen varð einnig Evrópumeistari með danska liðinu 2012, þá á fertugasta aldursári.

Christiansen er bæði leikja- og markahæstur í sögu danska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×