Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að rakning á síma Josh Neuman, eins farþega vélarinnar, hafi sýnt hvar vélina var að finna í Þingvallavatni. Fréttablaðinu hafi borist þau um klukkan sjö á fimmtudagskvöld, sama kvöld og vélin hvarf, og verið sögð komin í gagnagrun björgunarsveitanna.
Þá hafi þau gengið „milli manna í flugheiminum“.
Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en aðfaranótt föstudags sem lögregla fékk gögnin. Þá hafi leit þegar verið hafin í Þingvallavatni en það hafi ekki verið fyrr en gögnin bárust leitarstjórn sem vélin fannst á um 50 metra dýpi.
Fréttablaðið hefur eftir Oddi Árnasyni yfirlögregluþjóni að honum sé ekki kunnugt um það hvers vegna gögnin bárust lögreglu svo löngu eftir að þau voru komin í dreifingu.
Uppfært klukkan 23:30:
Viðbragðsaðilar hafa gefið það út að frétt Fréttablaðsins, sem vísað er í hér að ofan, sé alfarið röng. Umfjöllunin hafi byggt á algjörum misskilningi á því hvernig haldið sé utan um gögn sem berist við leit og hvernig unnið sé úr þeim. Umræddur gagnagrunnur sé sameiginlegur grunnur allra viðbragðsaðila og hafi þeir því allir haft aðgang að gögnunum á sama tíma.