Paul Magnette, sem er leiðtogi Sósíalistaflokksins og borgarstjóri í Charleroi, sagðist óttast að vöxtur netverslunnar væri að „hola út“ heilu borgarhverfin og stuðla að versnandi vinnuaðstæðum.
„Látum Belgíu verða land án netviðskipta,“ saðgi Magnette í samtali við dagblaðið Humo. „Fyrir mér er netverslun ekki framþróun, heldur félagsleg og efnahagsleg hrörnun. Af hverju þarf starfsfólk í þessum vöruhúsum að vinna næturvinnu? Af því að fólk vill versla allan sólahringinn og fá pakkana heim innan 24 klukkustunda. Getum við í alvöru ekki beðið í tvo daga eftir bók?“ spurði hann.
Samkvæmt Eurostat, evrópsku hagstofunni, versluðu 74 prósent Belga á aldrinum 16 til 74 ára hjá netverslun árið 2021, sem er rétt fyrir ofan meðallag fyrir aðildarríki Evrópusambandsins. Hlutfall þeirra sem versluðu á netinu í fyrra var hæst í Danmörku, 91 prósent, en lægst í Búlgaríu, 33 prósent.
Ummæli Magnette tengjast meðal annars umræðum sem hafa átt sér stað á belgíska þinginu, þar sem verið er að ræða breytingar á lögum og reglum þegar kemur að næturvinnu, sem taldar eru nauðsynlegar til að gera Belgíu samkeppnishæfa við nágrannaríki á borð við Holland.
Eins og sakir standa verða fyrirtæki að greiða næturálag fyrir alla vinnu sem á sér stað eftir klukkan 20 en til skoðunar er að breyta lögum þannig að fyrirtækjum sé heimilt að greiða dagvinnu fyrir allta að 20 klukkutíma sólahringsins, að gefnu samþykki verkalýðsfélags starfsmanna.
Talsmaður Sósíalistaflokksins sagði í kjölfar viðtalsins að Magnette væri ekki á móti netverslun, heldur þætti honum umræða þurfa að eiga sér stað um afleiðingar hennar. Ummæli hans hafa hins vegar verið harkalega gagnrýnd af pólitískum andstæðingum, sem saka hann meðal annars um að vilja færa hagkerfið aftur um 100 ár.