Innherji

Bankið í ofninum: Hvað kostar þjóð að framleiða krósant og ís?

Pétur Blöndal skrifar
pblöndal.jpeg

Eins dauði er annars brauð. Á Íslandi er það croissant. Það er rammpólitískt bakkelsi.

Ef til vill flokkast það sem fánýtur fróðleikur, en smjör er um 30-40 prósent af hráefninu í croissant og gerir útslagið. Enda kallast það smjörhorn á íslensku. Þegar croissant er bakað, þá bráðnar smjörið og myndast gufa, því drjúgur partur af smjörinu er vatn. Og það er gufan sem veldur því að brauðið verður svona loftkennt og mjúkt. Eitthvað ljóðrænt og fallegt við það, eins og það hafi blandast franskri menningu.

Betra franskur bakari en íslenskur?

Ef til vill er það þess vegna sem croissant er vinsælt um allan heim. Þar með talið á Íslandi. En vandinn fyrir bakara hér á landi er að smjörið er mun dýrara en í Frakklandi. Ef þeim dettur í hug að flytja inn erlent smjör, þá leggjast himinháir verndartollar á það. Ekkert ljóðrænt við það. En það mun vera til að vernda íslenskan mjólkuriðnað.

Þeim er sumsé refsað af stjórnvöldum fyrir að ráðast í bakstur frá grunni hér á landi. Í raun má segja að verið sé að hengja bakara fyrir smið – eða íslenskan bakara fyrir franskan.

En til er leið framhjá verndartollunum, sem felst í því að flytja inn frosið croissant með ódýru erlendu smjöri, til dæmis frá Frakklandi eða Belgíu. Þá þarf engan íslenskan bakara og ekki íslenskar mjólkandi kýr heldur. Hvernig eiga bakarar að að keppa við þennan innflutta varning, þar sem þeim er gert að kaupa mun dýrara smjör í baksturinn? Þeim er sumsé refsað af stjórnvöldum fyrir að ráðast í bakstur frá grunni hér á landi. Í raun má segja að verið sé að hengja bakara fyrir smið – eða íslenskan bakara fyrir franskan.

Ísinn ekki samkeppnishæfur á Íslandi

Svipaða sögu er að segja af ýmsum öðrum vörutegundum. Tökum sem dæmi ísinn frá Kjörís. Fyrirtækið notar mjólkurduft í framleiðsluna og er það mun dýrara hér á landi en erlendis. Kjörís er gert ókleift að flytja inn ódýrara mjólkurduft, þar sem himinháir tollar eru lagðir á það. Engir tollar eru hinsvegar lagðir á innfluttan ís, sem vitaskuld er búinn til með ódýru mjólkurdufti. Það skekkir samkeppnisstöðuna og aftur gildir það sama, fyrirtækjum er refsað fyrir að framleiða frá grunni hér á landi.

Hér eru einungis tvær vörutegundir nefndar til sögunnar, en vandinn er mun útbreiddari en það. Súkkulaði, kex, kökur, unnar kjötvörur. Listinn er langur. Þannig er að þegar innflutningstollar voru felld niður í ársbyrjun 2015, til mikilla hagsbóta fyrir íslenska neytendur, þá héldust inni verndartollar á landbúnaðarafurðum. Framleiðendur hér á landi, sem framleiða úr landbúnaðarafurðum, standa því höllum fæti gagnvart samkeppni erlendis frá. Hættan er augljóslega sú, að það valdi því að íslenska framleiðslan leggist af eða flytjist úr landi og er innlendur landbúnaður þá síst bættari. Fyrir utan að það kæfir frumkvæði og verðmætasköpun.

Kjörís er gert ókleift að flytja inn ódýrara mjólkurduft, þar sem himinháir tollar eru lagðir á það. Engir tollar eru hinsvegar lagðir á innfluttan ís, sem vitaskuld er búinn til með ódýru mjólkurdufti.

Hvort ætli sé til dæmis hagkvæmara að framleiða útflutningsvöruna skyr á Íslandi eða framleiða skyrið erlendis með erlendu mjólkurdufti?

Tollaskírteini eða markaðslausnir?

Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að íslensk framleiðsla flytjist til útlanda út af verndartollum sem ætlað er að vernda íslenska framleiðslu. Grundvöllur verðmætasköpunar á Íslandi er að gæta að samkeppnishæfni atvinnulífsins. En þarna virðist stjórnvöldum hafa fatast flugið.

Ein leið til að bæta úr því gæti verið gamaldags tollaskírteini fyrir innlenda framleiðendur, eins og tíðkast í Noregi, en þá fá þeir bætur frá ríkinu ef keypt er erlent hráefni með tollum. Þó að millifærslukerfi séu aldrei góð, má velta því upp hvort það skilaði ekki skárri niðurstöðu. En skilvirkara væri að gefa allt frjálst. Fara þá frumlegu leið að láta markaðinn um að leysa vandamálið.

Hvort ætli sé til dæmis hagkvæmara að framleiða útflutningsvöruna skyr á Íslandi eða framleiða skyrið erlendis með erlendu mjólkurdufti?

Það er raunar ekkert langsótt. Mjólkursamsalan undirbýr nú fullvinnslu á mjólkurpróteini með framleiðslu á kaseini sem mun leysa af hólmi framleiðslu á undanrennuosti og draga úr þörf fyrir framleiðslu á undanrennudufti, að því er fram kom í viðtali við Pálma Vilhjálmsson forstjóra Mjólkursamsölunnar í Morgunblaðinu. Hærra verð fæst fyrir kaseinið, ekki þarf eins mikla orku til að vinna það og kostnaður er minni við geymslu á því, þar sem eftirspurn er meiri og markaðir tryggari.

Það sýnir vel hvers markaðurinn er megnugur, þegar markaðsöflin eru virkjuð og hugsað er í lausnum. Við blasir að ekki verður unað við óbreytt kerfi, þar sem verndartollar grafa undan samkeppnishæfni íslensks iðnaðar. Það er engum til hagsbóta.

Bankið í ofninum

„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í óborganlegum þáttum Fóstbræðra og fórnaði höndum. Í þessum pistlum sem birtast vikulega á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

Pétur Blöndal p.blondal@gmail.com.


Tengdar fréttir

Bankið í ofninum: Gefur ein­hver kyn­líf­stæki?

Þegar eftirlitsiðnaðurinn er annarsvegar, þá getur velvild eins skapað öðrum vesen. Þannig var um unga konu í Noregi sem ætlaði að gleðja vinkonu sína á Íslandi með því að gefa henni kynlífstæki í afmælisgjöf.

Bankið í ofninum: „Þetta er grimmt próf!”

Viðbrögðin voru sterk við síðasta pistli um ökupróf hér á landi. Til þess er nú leikurinn gerður að vekja fólk til umhugsunar og því sjálfsagt að gera skil ábendingum sem berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×