Erlent

Einangrun verði ekki lengur skylda og smitrakningu hætt í vikunni

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti áætlunina á blaðamannafundi í dag. 
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti áætlunina á blaðamannafundi í dag.  AP/Tolga Akmen

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þinginu í dag að frá og með 1. apríl næstkomandi verði öllum takmörkunum vegna Covid aflétt í landinu. Stór skref verða sömuleiðis tekin til afléttingar síðar í vikunni.

Johnson kynnti áætlun um næstu skref í faraldrinum í dag en hann sagði nauðsynlegt að fólk lærði að lifa með faraldrinum þar sem veiran væri ekki að fara neitt.

Hann vísaði þó til þess að hápunkti ómíkron bylgjunnar virðist hafa verið náð þar sem færri eru nú að greinast í Bretlandi og færri leggjast inn. 

Nú væri tíminn til að koma hlutunum aftur í eðlilegt horf en vera viðbúin til að bregðast við ófyrirsjáanlegum aðstæðum sem kunna að koma upp síðar í faraldrinum.

Frá og með næstkomandi fimmtudegi, 24. febrúar, munu til að mynda þeir sem hafa greinst með Covid ekki þurfa að fara í einangrun samkvæmt lögum. Áfram verður þó ráðlagt að fólk haldi sig heima og forðist samneyti við aðra í að minnsta kosti fimm sólarhringa.

Þá verður smitrakningu hætt og þurfa þeir sem hafa verið í nánvígi við smitaðan einstakling ekki að taka próf daglega í sjö daga, líkt og nú kveður á um í lögum, eða fara í sóttkví. 

Frá og með fyrsta apríl verður síðan hætt að bjóða upp á fríar sýnatökur til almennings en áfram verður boðið upp á sýnatökur fyrir viðkvæmustu hópana. Þeir sem greinast með Covid verða beðnir um að sýna áfram persónulega ábyrgð þegar þeir ákveða hvort þeir verða heima eða ekki.

Að lokum mun ríkisstjórnin ekki lengur mæla með notkun svokallaðra Covid-passa, sem fólk hefur þurft að framvísa til að sækja sér ýmsa þjónustu eða viðburði.


Tengdar fréttir

Stefna á að aflétta öllum takmörkunum síðar í mánuðinum

Mögulegt er að öllum takmörkunum vegna Covid verði aflétt síðar í þessum mánuði að sögn Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, en það er mánuði á undan áætlun. Þannig yrði meðal annars einangrun vegna Covid smits afnumin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×