Í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt mátti sjá togarann Sirrý koma inn til löndunar í Bolungarvík. Þegar útgerðarfyrirtækið Jakob Valgeir ehf. fékk hann fyrir sex árum voru tuttugu ár liðin frá því togari var síðast gerður þaðan út. Fyrirtækið hefur samhliða byggt upp stærstu fiskvinnslu byggðarinnar. Starfsmenn í landi og á sjó eru um eitthundrað talsins.
Jakob Valgeir Flosason kveðst kannast við að það að vera útgerðarmaður sé nánast orðið skammaryrði. Sjálfur var hann fréttaefni í uppgjörum þrotabúa í eftirmálum bankahrunsins.
„Ég varð snar gjaldþrota bara.“
-Þannig að þú ert risinn aftur upp?
„Ég reis aftur upp, já. Bankinn hleypti mér áfram,“ segir Jakob Valgeir.

Meginhluta síðustu aldar báru fyrirtæki Einars Guðfinnssonar uppi atvinnulíf byggðarinnar. Nafni hans og barnabarn, Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi ráðherra, segir að fjölskyldan hafi þó aldrei litið á afa hans sem konung Bolungarvíkur.
„Og hann leit ekki þannig á. Hann var bara einn hluti af þessu samfélagi.
Og hann fann líka mjög fyrir þeirri ábyrgð sem honum var trúað fyrir, að honum fannst, með því að vera í forsvari fyrir þennan atvinnurekstur,“ segir Einar Kristinn.
En finnur Jakob Valgeir til slíkrar ábyrgðar?
„Já, já. Ég held að ég sé alveg að standa undir henni. Ég er allavega ekkert á förum.“
-Þannig að Bolvíkingar þurfa ekki að óttast að þú sért að fara í burtu með kvótann og skipin?
„Nei. Það sé ég ekki fyrir mér. Ég ætla bara að halda áfram og vonandi að umhverfið geri manni það kleift, - að það verði þokkalegt umhverfi áfram,“ svarar Jakob Valgeir.

Nærri þrjátíu ár eru frá því Einar Guðfinnsson hf. varð gjaldþrota. Við getum vart ímyndað okkur annað en það hafi verið sárt fyrir Einar Kristin að sjá atvinnureksturinn sem afi hans byggði upp nánast hverfa.
„Að sjálfsögðu.“
-Hvernig tilfinningar bærðust með þér?
„Það voru auðvitað margvíslegar tilfinningar og ég ber þær ekkert á torg,“ svarar Einar.
Þáttinn um Bolungarvík, þann fyrri af tveimur, má nálgast á efnisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: