Körfubolti

Kvennalið sektað um 64 milljónir króna fyrir að fljúga eins og karlaliðin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sabrina Ionescu er stærsta stjarna New York Liberty liðsins en hún var súperstjarna í bandaríska háskólaboltanum.
Sabrina Ionescu er stærsta stjarna New York Liberty liðsins en hún var súperstjarna í bandaríska háskólaboltanum. Getty/Sarah Stier

Í sumum atvinnumannadeildum heimsins er hreinlega bannað að hugsa of vel um leikmenn sína. Þá erum við ekki að tala um laun eða launaþak heldur ferðalög leikmanna á milli leikja.

Forráðamenn WNBA-körfuboltaliðsins New York Liberty fengu svakalega sekt í andlitið fyrir að auðvelda leikmönnum sínum ferðalagið á milli leikja eins og öll liðin í NBA deild karlanna gera.

Einkaflugvélar eru fastur ferðamáti karlaliðanna í NBA-deildinni en þær hafa þótt of dýr ferðamáti fyrir liðin í kvennadeildinni.

Það er því bannað að leigja einkaflugvélar fyrir liðin í deildinni og þá reglu brutu forráðamenn New York Liberty liðsins á síðustu leiktíð.

Sektin hljómaði upp á fimm hundruð þúsund Bandaríkjadali eða um 64 milljónir króna. Þetta er hæsta sektin í sögu deildarinnar.

Nýr yfirmaður WNBA-deildarinnar, Cathy Engelbert, veitti reyndar undanþágu í úrslitakeppni WNBA í fyrra þannig að liðið gátu ferðast með einkaflugvélum en það er aftur á móti stranglega bannað í deildarkeppninni.

Einkaflugvélarnar eru bannaðar til að halda sömu línu í deildinni því þótt að sumir eigendur hafi efni á slíku þá eru margir ag eigendum WNBA-félaganna sem hafa ekki efni á því. Það eru ekki sömu peningar í WNBA-deildinni og í NBA-deildinni.

Joe og Clara Tsa, eigendur New York Liberty, tóku áhættuna á síðustu leiktíð til að reyna að létta leikmönnum sínum undirbúning sinn fyrir leiki. Í stað þess að þurfa að fara í gegnum saman flugvallarvesenið og hinn venjulegi ferðalangur þá fengu leikmenn að fljúga með einkaflugvél milli leikja.

Eigendur hinna liðanna komust að þessu og hótuðu öllu illu samkvæmt frétt hjá Sports Illustrated. Liberty átti fyrst að fá milljón dollara sekt, átti mögulega að missa valrétti í nýliðavalinu og jafnvel að vera rekið úr deildinni.

Málið var á endanum leyst á bak við tjöldin og sektin var lækkuð eftir að Liberty notaði ekki einkaflugvél í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Grein Sports Illustrated hefur nú komið þessu máli í sviðsljósið og það er óhætt að segja að það komi ekkert sérstaklega vel út að það sé bannað að hugsa jafnvel um konurnar og hugsað er um karlana.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×