Fjármálastöðugleikanefnd telur að efnahagsbatinn verði hægari en áður var áætlað vegna stríðsins í Úkraínu, sérstaklega ef stríðið dragist álanginn.
„Við erum náttúrlega að sjá hækkun á hrávörum sem þýðir að það sem við erum að flytja inn hefur hækkað í verði. Mögulega erum líka við að sjá horfur í ferðaþjónustu versna vegna þessarar stöðu,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Mikið velti því á hvernig sumarið verði í ferðaþjónustunni. Það geti reynst henni erfitt að verða fyrir öðru áfalli strax á eftir kórónuveirufaraldrinum.
„Fyrir þessa grein veltur mjög mikið á því að næsta sumar gangi vel. Ég er ekki að segja að það geri það ekki. En það eru ákveðnir áhættuþættir sem við erum að benda á,“ segir Ásgeir. Eins og hækkun eldsneytisverðs sem komi illa við flugfélögin sem aftur geti leitt til hækkunar á verði farmiða sem gæti dregið ásamt öðrum þáttum úr ferðavilja fólks.
Hækkun á verði matvæla í heiminum þýði hins vegar að verð á útfluttum íslenskum matvælum hækki einnig. Verðbólga sé enn allt of mikil hér og í útlöndum þar sem verðbólguhorfur hafi versnað vegna stríðsins. Auk innfluttrar verðbólgu hafi mikil hækkun húsnæðisverðs enn mikil áhrif á verðbólguna hér á landi en síðustu tólf mánuði hafi húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 22 prósent.
Seðlabankastjóri segir að raunvextir hafi verið neikvæðir hér á landi um nokkurt skeið í fyrsta sinn í um fjörtíu ár. Því megi reikna með áframhaldandi vaxtahækkunum.
„Stýrivextir Seðlabankans eru enn mjög lágir í sögulegu samhengi. Við höfum það lögbunda hlutverk að halda verðbólgu ískefjum. Að einhverju leyti núna erum við að eiga við ytri þætti, hækkanir á hrávöru sem koma inn. Við teljum aðfasteignamarkaðurinn muni áeinhverjum tímapunkti, ekki langt undan, hætta að hækka,“ segir Ásgeir en viðurkennir að erfitt geti verið að eiga við skort á framboði á íbúðarhúsnæði.
Vonir séu aftur á móti bundnar við að jafnvægi á húsnæðismarkaði komi til lækkunar verðbólgu. Í millitíðinni ættu bæði fyrirtæki og heimili að þola aukiðpeningalegt aðhald. Enda hafi heimilin að jafnaði aldrei staðið eins vel og nú varðandi skuldastöðu og sparnað og vanskil húsnæðislána hjá stóru bönkunum séu innan við eitt prósent.