Reikna má með suðlægri átt, víða þremur til átta metrum á sekúndu, en hvassari syðst í fyrstu. Víða verður bjartviðri, en smá él við austurströndina. Þá þykknar upp vestantil um kvöldið.
Hiti verður á bilinu eitt til sex stig á sunnanverðu landinu að deginum, en vægt frost annars staðar. Víða næturfrost.
„Skúrir S- og V-lands á morgun, en slydduél eða él fyrir norðan, annars úrkomulítið,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Afsakar sólarleysið
Í hugleiðingum veðurfræðings segir ennfremur að einhverjir hafi verið vongóðir um að sólin myndi skína glatt í gær en almennt séu skýjahuluspár minnst ábyggilegu spáafurðir sem veðurfræðingar vinni með. „Samt sem áður hafa þær batnað stórlega á síðustu árum, en almennt standa þær sig best þegar skil nálgast landið en eins og í gær ekkert sérstakar þegar langt er í næstu lægð og eða skil.
Stundum vantar aðeins herslumuninn að sólin nái að bræða af skýjahuluna og til marks um það þá mældust rúmlega 3 klukkustunda sólskin á sólarmæli Veðurstofunnar í gær. Svo má alveg gera sér vonir að dagurinn í dag geri enn betur.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Suðlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og dálitlar skúrir eða él, en lengst af þurrt fyrir austan. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig að deginum.
Á föstudag: Hæg suðlæg átt og dálítil rigning eða slydda með köflum, en þurrt að mestu A-lands. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.
Á laugardag: Norðlæg eða breytileg átt og dálítil él fyrir norðan, en suðvestlæg att og úrkomulítið syðra. Vægt frost NA-til, en annars 1 til 7 stiga hiti, mildast S-lands.
Á sunnudag: Gengur í sunnanátt með rigningu og hlýnandi veðri, en snjókoma og vægt frost á NA- og A-landi.
Á mánudag: Norðaustlæg átt og él fyrir norðan og austan en þurrt syðra og milt að deginum.
Á þriðjudag: Útlit fyrir austlæga átt með vætu sunnan- og vestantil, en þurrt að kalla um landið NA-vert. Heldur hlýnandi veður.