Handbolti

„Vorum eins og bitlaus hundur í sextíu mínútur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lítið gengur upp hjá strákunum hans Gunnars Magnússonar þessa dagana.
Lítið gengur upp hjá strákunum hans Gunnars Magnússonar þessa dagana. vísir/daníel

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var ekki upplitsdjarfur eftir tapið fyrir FH, 27-21, í Kaplakrika í kvöld.

„Þetta var rosalega erfitt og bar þess merki að sjálfstraustið hefur fjarað undan okkur. Við vorum fljótir að brotna við smá mótlæti og náðum aldrei að komast í takt við leikinn,“ sagði Gunnar við Vísi í leikslok en Mosfellingar eru nú án sigurs í sex leikjum í röð.

„Við vorum eins og bitlaus hundur í sextíu mínútur. Það lítur kannski út eins og það sé eitthvað andleysi en það er ekki það að menn vilji þetta ekki og leggi sig ekki fram. Sjálfstraustið er bara farið og við þurfum að vinna í andlegu hliðinni. Hún var ekki góð í dag.“

Afturelding skoraði bara 21 mark í leiknum í kvöld og sókn Mosfellinga var mjög óskilvirk.

„Við töpuðum boltanum átta sinnum í fyrri hálfleik. Það er sama vandamálið hjá okkur, við gerum of mörg mistök. Svo varði hann [Phil Döhler, markvörður FH] tvö víti og einhver dauðafæri. Það hjálpaði heldur ekki. Þetta leit mjög illa út,“ sagði Gunnar.

Í lokaumferð Olís-deildarinnar á sunnudaginn tekur Afturelding á móti Fram í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni.

„Við þurfum að setjast niður, taka hausinn í gegn og fá trú á þetta. Við þurfum að fá sjálfstraust aftur í liðið og mæta með það í næsta leik,“ sagði Gunnar.

„Við þurfum að vinna vel í okkar málum og höfum nokkra daga. Við getum miklu meira en þetta og nú er bara úrslitaleikur framundan. Við viljum fara í úrslitakeppnina og þurfum að þjappa okkur saman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×