Næstsíðasta umferð Olís-deildarinnar fór fram í gærkvöldi. Hún var sérstaklega gjöful fyrir Reykjavíkurliðin Val og Fram. Valsmenn unnu Hauka, 40-34, í uppgjöri efstu tveggja liða deildarinnar og komust þar með á toppinn. Þá hélt Fram vonum sínum um að komast í úrslitakeppnina á lífi með stórsigri á Stjörnunni, 37-27.
Í lokaumferðinni mætir Valur Selfossi á útivelli. Á sama tíma taka Haukar á móti FH í Hafnarfjarðarslag á Ásvöllum. Valur og Haukar eru með jafn mörg stig, 32, en Valsmenn eru með betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna.
Til að verða deildarmeistarar annað árið í röð þurfa Haukar að vinna FH og treysta á að Selfoss taki stig af Val. Selfyssingar hafa ekki að neinu að keppa en þeir enda í 5. sæti sama hvernig leikirnir í lokaumferðinni fara.
Staðan í deildinni fyrir lokaumferðina

Eftir dramatískt tap fyrir ÍBV í Eyjum í gær á Grótta ekki lengur möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Ef Seltirningar hefðu fengið stig í Eyjum hefðu þeir verið á leið í úrslitaleik við KA-menn um sæti í úrslitakeppninni.
Fram virtist vera úr leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en eftir að hafa fengið þrjú stig í síðustu tveimur leikjum eiga Safamýrarpiltar allt í einu möguleika á því að komast þangað.
Í lokaumferðinni mætir Fram Aftureldingu í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni. Mosfellingar töpuðu fyrir FH-ingum í gær, 27-21, og hafa aðeins fengið tvö stig í síðustu sex leikjum sínum.
Þeim dugir hins vegar jafntefli gegn Frömmurum í lokaumferðinni og ef öll úrslit verða þeim í hag gætu þeir endað í 7. sætinu. Ef allt fer á versta veg gæti Afturelding aftur á móti endað í 10. sætinu.
Möguleikarnir í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni
Grótta vinnur KA, Fram vinnur UMFA
- 7. KA 20
- 8. Fram 19
- 9. Grótta 19
- 10. Afturelding 19
Grótta vinnur KA, UMFA vinnur Fram
- 7. Afturelding 21
- 8. KA 20
- 9. Grótta 19
- 10. Fram 17
KA vinnur Gróttu, Fram vinnur UMFA
- 7. KA 22
- 8. Fram 19
- 9. Afturelding 19
- 10. Grótta 17
KA vinnur Gróttu, UMFA vinnur Fram
- 7. KA 22
- 8. Afturelding 21
- 9. Fram 17
- 10. Grótta 17
Fjögur lið eru föst í sínum sætum og enda þar sama hvernig leikirnir í lokaumferðinni fara. Þetta eru Selfoss (5), Stjarnan (6), HK (11) og Víkingur (12).
Möguleg sæti liðanna eftir lokaumferðina
- Valur 1. eða 2. sæti
- Haukar 1. eða 2. sæti
- ÍBV 3. eða 4. sæti
- FH 3. eða 4. sæti
- Selfoss Fast í 5. sæti
- Stjarnan Fast í 6. sæti
- KA 7. eða 8. sæti
- Afturelding 7., 8., 9. eða 10. sæti
- Fram 8., 9. eða 10. sæti
- Grótta 9. eða 10. sæti
- HK Fast í 11. sæti
- Víkingur Fast í 12. sæti
Allir leikirnir í lokaumferðinni hefjast klukkan 18:00 á sunnudaginn. Fylgst verður með þeim öllum samtímis í sérstökum þætti af Seinni bylgjunni.
Leikirnir í lokaumferðinni
- Selfoss - Valur
- Haukar - FH
- Afturelding - Fram
- Grótta - KA
- HK - ÍBV
- Stjarnan - Víkingur
Farið verður yfir næstsíðustu umferðina í Olís-deildinni í Seinni bylgjunni klukkan 21:00 á Stöð 2 Sport 4 í kvöld.