Soffía Dögg er pistlahöfundur hér á Lífinu á Vísi og í dag sýnir hún hvernig hægt er að breyta blómavösum, kertastjökum og fleiru með lítilli fyrirhöfn og litlum kostnaði. Breytti hún hlutum sem hún keypti í Góða hirðinum. Við gefum henni orðið.

Það er ekkert sjálfgefið að finna alltaf eitthvað þegar maður leitar í svona nytjamarkaði – það getur alveg tekið nokkrar ferðir að finna “rétta stöffið”. Ég hef svona lítið verið að breyta og bæta undanfarið og mér fannst því fínt að finna mér bara eitthvað lítið til þess að koma mér í gírinn aftur.

Eins og hafið eflaust séð á samfélagsmiðlum þá hafa margir verið að leika sér með að blanda matarsóda saman við málningu. Það sem gerist við það er að málningin þykknar öll upp, verður grófari og ótrúlega skemmtileg áferð sem kemur á hana. Má í raun líkja henni við mjög grófa kalkmálningu.

Það er auðvelt að setja bara „paint and baking soda“ í leitina á google og þið fáið ótal niðurstöður upp. Almennt virðist vera talað um 1 bolla af matarsóda á móti 2 bollum af málningu, en mér fannst bara best að prufa mig áfram.

Ég var með gamla dós af uppáhalds grófu útimálningunni minni frá Slippfélaginu, sem var með rúmlega botnfylli í og ákvað því að blanda bara beint í hana. Gluðaði því bara matarsódanum ofan í og hrærði, hélt svo áfram að bæta við þar til ég fékk áferðina sem ég var ánægð með…

Hér sjáið þið í þetta blautt, og þið sjáið hversu gróft þetta verður.

Auka tips: Það er snilld að nota svona diskamottur að mála á, auðvelt að snúa hlutinum og svo festist ekkert við hana, líkt og getur gerst með dagblöð…


Auk þess að mála vasann og stjakana, þá fékk þessi litli styttuhaus líka að kenna á penslinum…


Hér má svo sjá lokaútkomuna.

Pistlahöfundurinn Soffía Dögg er með síðuna Skreytum hús og samnefndan hóp á Facebook. Hún er einnig þáttastjórnandi þáttanna Skreytum hús hér á Vísi og á Stöð 2+ og skrifar pistla hér á Lífinu.
Hægt er að finna allt Skreytum hús efnið HÉR á Vísi og svo má fylgjast með Soffíu Dögg á Instagram og á blogginu hennar, Skreytum hús.