Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Úkraína hefur skilað inn pappírum sem skref í því ferli að sækja um aðild að Evrópusambandinu.
- Úkraínumenn hafa snúið vörn í sókn í Karkív og náð tveimur þorpum aftur á sitt vald.
- Evrópusambandið hefur ákveðið að veita 50 milljónum Evra aukalega í mannúðaraðstoð vegna stríðsins í Úkraínu.
- Úkraínskir hermenn í Maríupól ætla að berjast til hins síðasta. Þeir eru umkringdir af rússneskum hermönnum, sem hafa krafist þess að Úkraínumenn gefist upp.
- Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, segir Vladimír Pútin telja sig vera að vinna stríðið í Úkraínu. Nehammer er eini leiðtogi Evrópu sem hefur hitt Pútín frá því innrásin í Úkraínu hófst.
- Rússar gáfu úkraínsku varnarliði í Maríupol afarkosti um að yfirgefa borgina í nótt. Rússar hétu því að hermönnum í varnarliðinu yrði ekki gert mein gegn því að þeir legðu niður vopn og að komið yrði fram við þá samkvæmt ákvæðum Genfar-sáttmálans um stríðsfanga.
- Frestur Úkraínumanna til að verða við þessum kröfum Rússa rann út án viðbragða af hálfu varnarliðsins.
- Síðasta herlið Úkraínumanna í Maríupol hefst við í stálverksmiðju í borginni. Forseti Úkraínu segir að ef hermennirnir verði drepnir þýði það endalok friðarviðræðna.
