Berdreymi: Strákarnir okkar eru ekki í lagi Heiðar Sumarliðason skrifar 28. apríl 2022 15:03 Drengirnir gera nú annað en að slást. Ný íslensk kvikmynd, Berdreymi, var frumsýnd sl. föstudag. Leikstjóri og höfundur hennar er Guðmundur Arnar Guðmundsson, þetta er hans önnur kvikmynd, en áður hefur hann gert Edduverðlaunamyndina Hjartastein. Guðmundur er hér aftur að fjalla um drengi og eitraða karlmennsku, en færir nú sögusviðið af landsbyggðinni til borgarinnar og þ.a.l. hvergi búfénað að sjá (þó reyndar sé minnst á eina rollu, en látum það liggja milli hluta). Við kynnumst vinunum Adda, Konna og Sigga, 101 Reykjavík unglingum á tíunda áratugi síðustu aldar. Óvænt taka þeir skólagreyið, Balla, undir sinn verndarvæng. Heimur þeirra er svo gegnsýrður af brengluðum ofbeldis- og yfirgangskúltúr að manni líður hálfpartinn eins og öll veröldin sé svona þegar horft er á myndina, svo afstúkuð er hún. Berdreymi hleypir manni inn í heim sem er að mörgu leyti ókunnugur, en samt svo kunnuglegur. Þetta er heimur sem við vitum af, en látum sem að sé ekki til. Ef ég sæi þessa drengi úti á götu myndi ég sennilega ranghvolfa augunum og hugsa: Fávitar! Það er vegna þessa að, jú, þeir minna mig á ýmsa fávita sem ég man eftir frá uppvaxtarárum mínum. Það kemur ekki á óvart að íslenskt kvikmyndagerðarfólk vilji fjalla um þennan afkima samfélagsins, enda eru þessir fárveiku ofbeldisdrengir okkar, eitt stærsta vandamál samfélagsins, enda vaxa ofbeldisdrengir oft úr grasi og verða ofbeldismenn, ef ekki er gripið inn í. Þetta er efni sem hefur lengi verið mér hugleikið, enda kemst maður ekki hjá að hafa orðið var við þetta samfélag ungra manna sem svo margir eru fárveikir af ofbeldishneigð, hafi maður á annað borð ekki alist upp í afskekktri sveit. Berdreymi er samt ekki beint predikun og skrímslavæðir ekki aðalpersónur sínar. Sama hversu mikið við viljum fjarlægja okkur frá þessum drengjum og fordæma, þá komumst við ekki hjá því að þetta eru strákarnir okkar. Þeir eru afsprengi umhverfis síns, feðra og stjúpfeðra sinna, alkóhólisma og ofbeldis. Manni þykir á endanum vænt um þá alla, því þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta bara grey, eins og allir ofbeldismenn. Þeir eru áttavilltir og reiðir, og skortir leiðbeiningu frá umhverfi og góðar fyrirmyndir. Sat enn í mér daginn eftir Það er ekki algengt að kvikmyndir sitji í mér. Daginn eftir áhorfið fann ég hins vegar óvænt að unglingsdrengirnir fjórir, voru ennþá með mér. Ekki bara andi persóna þeirri, heldur einnig andi feðra þeirra, sem sjálfir eru afsprengi sama brenglaða umhverfis. Sérstaklega var persóna Ólafs Darra Ólafssonar, sem lék stjúpföður Balla (Áskell Einar Pálmason), mér hugleikin. Ég velti fyrir mér hverju þessi maður hefur lent í um ævina og hvers vegna hann nær ekki að rjúfa þessa keðju ofbeldis og yfirgangs gangvart ástvinum sínum? Í framhaldi af því velti ég fyrir mér hvort við værum að horfa upp á það að persóna Konna (Viktor Benóný Benediktsson) endi á nákvæmlega sama stað og stjúpfaðir Balla? Myndin spyr ekki þessarar spurningar beint, en hún gerir það samt óbeint. Og jafn vænt og mér þótti á endanum um Konna, þennan ofbeldishneigða bjána, þá læddist að mér sá grunur að hann ætti ekki góða ævi í vændum. Konni lætur til skara skríða. Það eru hinir óheilbrigðu, fráhverfu, eða ofbeldisfullu feður þessara drengja sem skapa farveg fyrir atferilsvanda þeirra. En áttu þeir nokkurn tíma séns sjálfir, komnir úr nákvæmlega sama umhverfi ofbeldis og drykkju? Berdreymi er kvikmynd sem lifir sjálfstæðu lífi utan hvíta tjaldsins, en slíkar myndir eru ekki á hverju strái. Þetta er að hluta til vegna þess að hún fjallar um samfélagsvandamál sem koma okkur öllum við, alkóhólisma og ofbeldi, og gerir það ótrúlega vel. Óskiljanlegir unglingar Þrátt fyrir að Berdreymi sé að mestu leyti framúrskarandi kvikmynd, verð ég samt að setja spurningarmerki við nokkra hluti. Helsti galli myndarinnar liggur hjá ungu leikurunum fjórum sem túlka aðalpersónurnar, því fulloft skildi ég ekki helminginn af því sem þeir voru að segja. Það hafði ekkert með hljóðvinnsluna að gera, hún var í góðu lagi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ungt fólk talar margt óskýrt og e.t.v. vildi leikstjórinn hafa talsmátann sem raunverulegastan, það er þó grundvallaratriði að áhorfandinn skilji mælt mál. Balli fer í bað. Ég dauðsá eftir því að hafa ekki séð myndina í Bíó Paradís, þar sem hún er sýnd með enskum texta, það hefði a.m.k. verið hægt að nota hann sem hækju. Ég veit auðvitað ekki hvort þetta eigi að vera stílbragð, eða kvikmyndagerðarfólkið hafi orðið svo samdauna textanum að það hafi ekki áttað sig á þessu. Hvor sem ástæðan er, þá er þetta verulegur galli. Hið íslenska volæði Þrátt fyrir að Berdreymi sé frábær kvikmynd, og innihaldi ekki svo mikið sem eitt jarm eða bónda, hefur hún þó u.þ.b. 20% of mikið af öðrum ofnotuðum efnisþáttum í íslenskum kvikmyndum; kynferðisofbeldi og alkóhólisma. Ef ég á að vera fyllilega hreinskilinn, hefði sennilega þjónað henni ágætlega að fækka um einn alkóhólista og einn nauðgara, því öllu má nú ofgera. Oft hefur verið gantast með það að íslenskt bíó fjalli ekki um annað en búfénað, alkóhólisma og kynferðisofbeldi. Líkt og áður sagði er Berdreymi mynd sem fær mann til að hugsa, og hef ég verið töluvert hugsi yfir öllum þessum alkóhólisma og kynferðisofbeldi í íslenskum kvikmyndum. Ég hef farið í gegnum ákveðið hugsanaferli varðandi þetta síðustu daga, á meðan ég ritaði þennan pistil. Fyrst skrifaði ég hæðnislega klausu um skort á hugmyndaauðgi og leti íslenskra kvikmyndahöfunda, en eftir að hafa velt því fyrir mér hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé skiljanlegt. Því strokaði ég klausuna út og skrifaði þess í stað: Kvikmyndahöfundar vilja auðvitað fjalla um átakanlega hluti en vandinn við það að vera íslenskur handritshöfundur liggur í smæð og sakleysi samfélagsins. Ef maður ber okkur saman við það sem gengur á í Bandaríkjunum, er þar af mun meiru að taka: Raðmorðingjar, stríð, hryðjuverk, villta vestrið, þrælahald, rasismi, dauðarefsingar, fjölþætt samfélagsleg vandamál, sturlaðir milljarðamæringar, tækniframfarir, gegndarlaus ævintýramennska og svo víðfeðm glæpastarfsemi að vart eru nein takmörk. Sennilega eigum við hér á landi fátt annað en landsbyggðareymd og ofbeldi, því er erfiðara að finna hluti til að fjalla um, og allt kemur þetta frá sömu uppsprettunni: Alkóhólisma. Því þurfa íslenskir höfundar að leggja þeim mun meira á sig til að finna spennandi efni sem þeir tengja við og hafa áhuga á að fjalla um, ef það á ekki að innihalda fyrrnefnda þrjá hluti. Það er ekki þar með sagt að handritshöfundar megi ekki huga að því að hvíla þessi þrjú element, eða a.m.k. fara að hugsa um aðrar birtingarmyndir þeirra vandamála sem að okkur steðja sem samfélag. En aftur að myndinni sjálfri, þá velti ég fyrir mér þessu berdreymi hans Adda, sem titill myndarinnar vísar í. Er hér ekki um að ræða full mikinn aukaþráð í sögunni til að réttlæta að myndin sé kennd við hugtakið? Svo bætir ekki úr skák að berdreymið virkar eins og því sé hálfpartinn þröngvað inn í framvinduna. Ég hefði hreinlega ekki saknað þess hefði það verið klippt út úr myndinni, það bætir engu við, dýpkar söguna ekki og allur þráðurinn um mögulega skyggnigáfu Adda, það er í raun ekkert í honum. Hann hefur engin raunveruleg áhrif á framvinduna og er eins og óþarft skraut. Þegar litið er á heildarmyndina er þetta þó hálfgerð sparðatínsla hjá mér, því Berdreymi, sem upplifun, jaðrar við að vera frábær. Ég man ekki til þess að hafa nokkurn tíma litið á klukkuna á meðan á áhorfinu stóð og þá er mikið sagt, því ég lít nú yfirleitt nokkrum sinnum á hana þegar ég fer í bíó. Ég mæli því heilshugar með Berdreymi og hvet fólk til að fara í bíó og kynnast Balla, Adda, Konna og Sigga, þó svo maður skilji þá ekki alltaf. Niðurstaða: Berdreymi er það áhrifamikil kvikmynd að maður fyrirgefur henni gallana með bestu lyst. Stjörnubíó Bíó og sjónvarp Mest lesið Fjölmenni í fimmtugsafmæli Ásgeirs Kolbeins á Tenerife Lífið Bjargvætturinn birtist óvænt og Hilmar brast í grát Lífið Bríet, Valdimar og Elín Hall meðal hæstu styrkhafa Tónlist Þefaði ómvölurnar uppi í snjónum Lífið Krakkatían: Sólskin, dýr og gönguleiðir Lífið Einhleypan: Væri til í steik og rautt með Blö-strákunum Makamál Kveður samfélagsmiðla fyrir fullt og allt Lífið Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Verð alltaf stoltari og stoltari af mömmu Lífið Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Guðmundur er hér aftur að fjalla um drengi og eitraða karlmennsku, en færir nú sögusviðið af landsbyggðinni til borgarinnar og þ.a.l. hvergi búfénað að sjá (þó reyndar sé minnst á eina rollu, en látum það liggja milli hluta). Við kynnumst vinunum Adda, Konna og Sigga, 101 Reykjavík unglingum á tíunda áratugi síðustu aldar. Óvænt taka þeir skólagreyið, Balla, undir sinn verndarvæng. Heimur þeirra er svo gegnsýrður af brengluðum ofbeldis- og yfirgangskúltúr að manni líður hálfpartinn eins og öll veröldin sé svona þegar horft er á myndina, svo afstúkuð er hún. Berdreymi hleypir manni inn í heim sem er að mörgu leyti ókunnugur, en samt svo kunnuglegur. Þetta er heimur sem við vitum af, en látum sem að sé ekki til. Ef ég sæi þessa drengi úti á götu myndi ég sennilega ranghvolfa augunum og hugsa: Fávitar! Það er vegna þessa að, jú, þeir minna mig á ýmsa fávita sem ég man eftir frá uppvaxtarárum mínum. Það kemur ekki á óvart að íslenskt kvikmyndagerðarfólk vilji fjalla um þennan afkima samfélagsins, enda eru þessir fárveiku ofbeldisdrengir okkar, eitt stærsta vandamál samfélagsins, enda vaxa ofbeldisdrengir oft úr grasi og verða ofbeldismenn, ef ekki er gripið inn í. Þetta er efni sem hefur lengi verið mér hugleikið, enda kemst maður ekki hjá að hafa orðið var við þetta samfélag ungra manna sem svo margir eru fárveikir af ofbeldishneigð, hafi maður á annað borð ekki alist upp í afskekktri sveit. Berdreymi er samt ekki beint predikun og skrímslavæðir ekki aðalpersónur sínar. Sama hversu mikið við viljum fjarlægja okkur frá þessum drengjum og fordæma, þá komumst við ekki hjá því að þetta eru strákarnir okkar. Þeir eru afsprengi umhverfis síns, feðra og stjúpfeðra sinna, alkóhólisma og ofbeldis. Manni þykir á endanum vænt um þá alla, því þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta bara grey, eins og allir ofbeldismenn. Þeir eru áttavilltir og reiðir, og skortir leiðbeiningu frá umhverfi og góðar fyrirmyndir. Sat enn í mér daginn eftir Það er ekki algengt að kvikmyndir sitji í mér. Daginn eftir áhorfið fann ég hins vegar óvænt að unglingsdrengirnir fjórir, voru ennþá með mér. Ekki bara andi persóna þeirri, heldur einnig andi feðra þeirra, sem sjálfir eru afsprengi sama brenglaða umhverfis. Sérstaklega var persóna Ólafs Darra Ólafssonar, sem lék stjúpföður Balla (Áskell Einar Pálmason), mér hugleikin. Ég velti fyrir mér hverju þessi maður hefur lent í um ævina og hvers vegna hann nær ekki að rjúfa þessa keðju ofbeldis og yfirgangs gangvart ástvinum sínum? Í framhaldi af því velti ég fyrir mér hvort við værum að horfa upp á það að persóna Konna (Viktor Benóný Benediktsson) endi á nákvæmlega sama stað og stjúpfaðir Balla? Myndin spyr ekki þessarar spurningar beint, en hún gerir það samt óbeint. Og jafn vænt og mér þótti á endanum um Konna, þennan ofbeldishneigða bjána, þá læddist að mér sá grunur að hann ætti ekki góða ævi í vændum. Konni lætur til skara skríða. Það eru hinir óheilbrigðu, fráhverfu, eða ofbeldisfullu feður þessara drengja sem skapa farveg fyrir atferilsvanda þeirra. En áttu þeir nokkurn tíma séns sjálfir, komnir úr nákvæmlega sama umhverfi ofbeldis og drykkju? Berdreymi er kvikmynd sem lifir sjálfstæðu lífi utan hvíta tjaldsins, en slíkar myndir eru ekki á hverju strái. Þetta er að hluta til vegna þess að hún fjallar um samfélagsvandamál sem koma okkur öllum við, alkóhólisma og ofbeldi, og gerir það ótrúlega vel. Óskiljanlegir unglingar Þrátt fyrir að Berdreymi sé að mestu leyti framúrskarandi kvikmynd, verð ég samt að setja spurningarmerki við nokkra hluti. Helsti galli myndarinnar liggur hjá ungu leikurunum fjórum sem túlka aðalpersónurnar, því fulloft skildi ég ekki helminginn af því sem þeir voru að segja. Það hafði ekkert með hljóðvinnsluna að gera, hún var í góðu lagi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ungt fólk talar margt óskýrt og e.t.v. vildi leikstjórinn hafa talsmátann sem raunverulegastan, það er þó grundvallaratriði að áhorfandinn skilji mælt mál. Balli fer í bað. Ég dauðsá eftir því að hafa ekki séð myndina í Bíó Paradís, þar sem hún er sýnd með enskum texta, það hefði a.m.k. verið hægt að nota hann sem hækju. Ég veit auðvitað ekki hvort þetta eigi að vera stílbragð, eða kvikmyndagerðarfólkið hafi orðið svo samdauna textanum að það hafi ekki áttað sig á þessu. Hvor sem ástæðan er, þá er þetta verulegur galli. Hið íslenska volæði Þrátt fyrir að Berdreymi sé frábær kvikmynd, og innihaldi ekki svo mikið sem eitt jarm eða bónda, hefur hún þó u.þ.b. 20% of mikið af öðrum ofnotuðum efnisþáttum í íslenskum kvikmyndum; kynferðisofbeldi og alkóhólisma. Ef ég á að vera fyllilega hreinskilinn, hefði sennilega þjónað henni ágætlega að fækka um einn alkóhólista og einn nauðgara, því öllu má nú ofgera. Oft hefur verið gantast með það að íslenskt bíó fjalli ekki um annað en búfénað, alkóhólisma og kynferðisofbeldi. Líkt og áður sagði er Berdreymi mynd sem fær mann til að hugsa, og hef ég verið töluvert hugsi yfir öllum þessum alkóhólisma og kynferðisofbeldi í íslenskum kvikmyndum. Ég hef farið í gegnum ákveðið hugsanaferli varðandi þetta síðustu daga, á meðan ég ritaði þennan pistil. Fyrst skrifaði ég hæðnislega klausu um skort á hugmyndaauðgi og leti íslenskra kvikmyndahöfunda, en eftir að hafa velt því fyrir mér hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé skiljanlegt. Því strokaði ég klausuna út og skrifaði þess í stað: Kvikmyndahöfundar vilja auðvitað fjalla um átakanlega hluti en vandinn við það að vera íslenskur handritshöfundur liggur í smæð og sakleysi samfélagsins. Ef maður ber okkur saman við það sem gengur á í Bandaríkjunum, er þar af mun meiru að taka: Raðmorðingjar, stríð, hryðjuverk, villta vestrið, þrælahald, rasismi, dauðarefsingar, fjölþætt samfélagsleg vandamál, sturlaðir milljarðamæringar, tækniframfarir, gegndarlaus ævintýramennska og svo víðfeðm glæpastarfsemi að vart eru nein takmörk. Sennilega eigum við hér á landi fátt annað en landsbyggðareymd og ofbeldi, því er erfiðara að finna hluti til að fjalla um, og allt kemur þetta frá sömu uppsprettunni: Alkóhólisma. Því þurfa íslenskir höfundar að leggja þeim mun meira á sig til að finna spennandi efni sem þeir tengja við og hafa áhuga á að fjalla um, ef það á ekki að innihalda fyrrnefnda þrjá hluti. Það er ekki þar með sagt að handritshöfundar megi ekki huga að því að hvíla þessi þrjú element, eða a.m.k. fara að hugsa um aðrar birtingarmyndir þeirra vandamála sem að okkur steðja sem samfélag. En aftur að myndinni sjálfri, þá velti ég fyrir mér þessu berdreymi hans Adda, sem titill myndarinnar vísar í. Er hér ekki um að ræða full mikinn aukaþráð í sögunni til að réttlæta að myndin sé kennd við hugtakið? Svo bætir ekki úr skák að berdreymið virkar eins og því sé hálfpartinn þröngvað inn í framvinduna. Ég hefði hreinlega ekki saknað þess hefði það verið klippt út úr myndinni, það bætir engu við, dýpkar söguna ekki og allur þráðurinn um mögulega skyggnigáfu Adda, það er í raun ekkert í honum. Hann hefur engin raunveruleg áhrif á framvinduna og er eins og óþarft skraut. Þegar litið er á heildarmyndina er þetta þó hálfgerð sparðatínsla hjá mér, því Berdreymi, sem upplifun, jaðrar við að vera frábær. Ég man ekki til þess að hafa nokkurn tíma litið á klukkuna á meðan á áhorfinu stóð og þá er mikið sagt, því ég lít nú yfirleitt nokkrum sinnum á hana þegar ég fer í bíó. Ég mæli því heilshugar með Berdreymi og hvet fólk til að fara í bíó og kynnast Balla, Adda, Konna og Sigga, þó svo maður skilji þá ekki alltaf. Niðurstaða: Berdreymi er það áhrifamikil kvikmynd að maður fyrirgefur henni gallana með bestu lyst.
Stjörnubíó Bíó og sjónvarp Mest lesið Fjölmenni í fimmtugsafmæli Ásgeirs Kolbeins á Tenerife Lífið Bjargvætturinn birtist óvænt og Hilmar brast í grát Lífið Bríet, Valdimar og Elín Hall meðal hæstu styrkhafa Tónlist Þefaði ómvölurnar uppi í snjónum Lífið Krakkatían: Sólskin, dýr og gönguleiðir Lífið Einhleypan: Væri til í steik og rautt með Blö-strákunum Makamál Kveður samfélagsmiðla fyrir fullt og allt Lífið Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Verð alltaf stoltari og stoltari af mömmu Lífið Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira