Fótbolti

Heimir: Eitt lið á vellinum í seinni hálfleik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals. Vísir/Hulda Margrét

Heimi Guðjónssyni, þjálfara Vals, fannst sigur liðsins gegn KR í Bestudeild karla í fótbolta vera afar sanngjarn. Heimir var sérstaklega sáttur við hvernig lið hans spilaði í seinni hálfleik.

„Mér fannst þessi leikur vinnast á góðri stemmingu af okkar hálfu og góðri spilamennsku. Fyrstu 20 mínútur leiksins vorum við ekki að vinna nógu marga seinni bolta og vorum aðeins að selja okkur þegar við fórum í pressu. 

Þegar leið á fyrri hálfleikinn löguðum við það hins vegar og náðum þá betri tökum á leiknum. Í kjölfarið náðum við að láta boltann ganga betur," sagði Heimir í samtali við Stöð 2 sport eftir leikinn.  

„Það var svo bara eitt lið á vellinum að mínu mati í seinni hálfleik og við spiluðum virkilega vel. Við fengum fullt af góðum færum eftir flott spil og ég er afar sáttur. 

Birkir Heimisson, Ágúst Eðvald og Aron voru flottir inni á miðsvæðinu og Haukur Páll átti góða innkomu þangað. Mér fannst raunar allir leikmenn liðsins eiga góðan leik og liðsheildin vera frábær," sagði þjálfari Vals einnig. 

Heimir var ekki hissa að það hafi verið hiti í leiknum enda um nágrannaslag að ræða: „Þegar þessi lið mætast á laugardagskvöldi í fínu veðri klukkan 19.15 þá má búast við hasar. Það var flott stemming í stúkunni og hart tekist á því inni á vellinum eins og vera ber," sagði hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×