Handbolti

Mun gjósa á nýjan leik í Eyjum?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verður ekkert gefið eftir í Eyjum í kvöld.
Það verður ekkert gefið eftir í Eyjum í kvöld. vísir/vilhelm

Annar leikur ÍBV og Hauka í úrslitakeppni Olís-deildar karla fer fram í kvöld og ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá verða læti í Eyjum í kvöld.

Liðin spiluðu frægan leik í Eyjum árið 2019 sem endaði með því að fjögur rauð spjöld fóru á loft. Það varð allt gjörsamlega brjálað.

Sá leikur dró dilk á eftir sér því Eyjamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson var dæmdur í þriggja leikja bann eftir umdeilt atvik er hann féll í gólfið með Heimi Óla Heimissyni, línumanni Hauka.

Í kjölfarið gengu skeytin á milli félaganna í fjölmiðlum og mikill hiti var í öllum samskiptum sem og í stúkunni í næsta leik.

ÍBV vann fyrsta leik liðanna á dögunum en eins og við mátti búast var hiti í leiknum. Þar komu líka upp atvik þar sem Kári Kristján og Heimir Óli komu við sögu. Kunnuglegt stef.

Ólafur Ægir Ólafsson fór með hnéð í kviðinn á Kára og svo féll Heimir Óli með miklum tilþrifum eftir að hafa verið nánast klæddur úr treyjunni. Eyjamenn vildu meina að þar hefði Heimir Óli kryddað hlutina fullmikið. Sjá má þau atvik hér að neðan.

Klippa: Umdeild atvik í leik eitt hjá Haukum og ÍBV

Það er augljóslega mjög grunnt á því góða milli félaganna og hitastigið verður klárlega hátt í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum og sviðsljósið örugglega talsvert á línumönnunum sterku.

Leikurinn hefst klukkan 18.00 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Seinni bylgjan verður í Eyjum og mun byrja að hita upp klukkan 17.30.

Hér að neðan má sjá umræðu Seinni bylgjunnar um hitann á milli félaganna.

Klippa: Seinni bylgjan um hitann á milli ÍBV og Hauka



Fleiri fréttir

Sjá meira


×