Á vef Veðurstofunnar segir hiti verði á bilinu núll til átta stig yfir daginn, mildast sunnantil en allvíða næturfrost.
„Á morgun gengur lægð austur yfir landið. Áttin verður því breytileg, víða kaldi eða strekkingur og úrkoma með köflum, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi fram eftir degi. Úrkoman verður ýmist snjókoma, slydda eða rigning á láglendi, en á fjallvegum verður snjókoman einráð. Annað kvöld bætir svo í vind.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Breytileg átt 5-13 m/s og rigning eða snjókoma með köflum, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 0 til 8 stig. Víða vestan og norðvestan 8-15 um kvöldið með snjókomu eða éljum og kólnar.
Á föstudag: Snýst í suðvestan og vestan 5-13 með éljum eða skúrum, en allhvöss norðvestanátt austantil í fyrstu. Hiti um eða yfir frostmarki. Léttir til á suðaustanverðu landinu og hiti 4 til 7 stig þar.
Á laugardag: Suðvestan og sunnan 5-10 og skúrir, en bjart að mestu austanlands. Hiti 3 til 9 stig.
Á sunnudag: Suðaustan 5-13 og súld eða rigning með köflum, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 5 til 13 stig.
Á mánudag: Breytileg átt og rigning víða um land. Áfram milt í veðri.
Á þriðjudag: Útlit fyrir norðlæga átt með dálítilli vætu, en þurrt að kalla syðra. Heldur kólnandi.